Föstudagur 28. 12. 12.
Fréttastofa ríkisútvarpsins nálgaðist stjórnmálafréttir á nýstárlegan hátt í kvöld þegar sagt var frá því sem aðalefni fréttar að tæplega 22 prósent landsmanna væru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Um 49 prósent segðust hins vegar vera óánægð með störf hennar.
Rúmlega 1.400 manns voru í úrtakinu og var svarhlutfall 60,1 prósent. Óánægja með stjórnarandstöðuna hefur aðeins minnkað frá fyrri mælingum.
Í fréttinni sagði einnig að fleiri teldu að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin þegar kæmi að efnahagsmálum, heilbrigðismálum og menntamálum. Fréttastofan tók fram að það væri lítil breyting frá síðustu mælingu. Þegar kæmi að velferðarmálum teldu álíka margir að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin og að hún myndi standa sig verr.
Ef fleiri töldu að almennt mundi stjórnarandstaðan taka betur á mikilvægum málum en ríkisstjórnin hefði verið forvitnilegt að vita hvað margir eru nú ánægðir með ríkisstjórnina í þessum nýja þjóðarpúlsi.
Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur hins vegar ekki áhuga á neikvæðum fréttum um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. – hún hefur aldrei haft það og áhuginn á því eykst ekki þegar dregur að kosningum.