Föstudagur 21. 12. 12.
Viðtal mitt við Helgu Birgisdóttur um ævisögu Nonna var ekki á ÍNN í gærkvöldi heldur í kvöld og verður næst klukkan 23.00, síðan 01.00 og á tveggja tíma fresti til 19.00 á morgun, áhugavert efni um merkilega bók.
Þá er lokið útsendingu á fjórum bókaþáttum mínum á ÍNN og eru þrír þeirra komnir inn á netið. Ég birti krækju á hinn fjórða þegar hann birtist á INNTV.IS.
Í vikunni kom út nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum þar legg ég til að þing verði rofið strax og gengið til kosninga, stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi runnið sitt skeið og hafi ekki lengur nein tök á málum á alþingi. Þetta sannaðist enn einu sinni í atkvæðagreiðslum á þingi í dag þar sem ríkisstjórnin hafði ekki styrk til að knýja fram mál á þann veg sem ráðherrar og stjórnarþingmenn vildu.
Þetta ástand mun ekki batna þegar nær dregur kosningum og eftir að Jóhanna hættir sem formaður Samfylkingarinnar verður hún endanlega úr sögunni sem pólitísk áhrifakona.
Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar dæmalausan samsetning um stjórnarskrármálið í dag á dv.is. Tilgangurinn virðist sá að sanna að sjálfstæðismenn styðji tillögur stjórnlagaráðs. Miðað við skrif Þorvalds fyrir og einkum eftir hrun er ekkert mál gott sem sjálfstæðismenn styðja. Nú er annað uppi á teningnum að hans mati, hið versta fyrir prófessorinn er að hann hefur enn einu sinni rangt fyrir sér. Sjálfstæðismenn styðja ekki tillögur stjórnlagaráðs.
Að hann leyfi sér að halda því fram að þeir sem vildu standa vörð um lýðveldisstjórnarskrána hefðu lagt lið samsuðunni frá stjórnlagaráði sem er reist á óvild í garð stjórnarskrár lýðveldisins sýnir aðeins hve langt Þorvaldur telur sér sæma að ganga í von um að blekkja fólk til stuðnings við hið einstaklega misheppnaða skjal sem kom frá hinu umboðslausa stjórnlagaráði sem kom saman þrátt fyrir að hæstiréttur hefði ógilt kosninguna til þess.