25.12.2012 18:50

Þriðjudagur 25. 12. 12. - jóladagur

Átök innan Samfylkingarinnar vegna formannskjörs snúast nú um hvort krefjast skuli félagssgjald af samfylkingarfélögum í Reykjavík til að þeir geti kosið formann. Fréttastofa ríkisútvarpsins talar enn um „kjörgengi“ þegar rætt er um kosningarétt. Þetta er undarlega þrálát villa hjá starfsmönnum fréttastofunnar. Í kosningum eru þeir kjörgengir sem hafa rétt til að vera í framboði, kjósendur hafa kosningarétt. Deilan innan Samfylkingarinnar snýst um hvort réttmætt sé að þrengja að kosningarétti þeirra sem skráðir eru í flokksfélagið í Reykjavík.

Ég skrifaði um þetta á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Í dag er sagt frá orðinu ugsome á vefsíðunni A.Word.A.Day. Orðið er skýrt með orðunum dreadful, loathsome, hroðalegur, fyrirlitlegur. Uppruni orðsins er rakinn til old norse og íslenska sagnorðsins ugga - að óttast. Af sögninni er enska orðið ugly, ljótur, meðal annars dregið. Lýsingarorðið ugsome er sjaldan notað ólíkt ugly en fyrst sést það skráð um 1425.