Mánudagur 17. 12. 12.
Í kvöld klukkan 20.30 var sýnt á ÍNN viðtal mitt við Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing í tilefni af bók hennar um rannsóknirnar á klaustrinu að Skriðu. Viðtalið verður sýnt 22.30 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.30 á morgun. Þetta er annar bókaþáttur minn á ÍNN. Hinn þriðji verður miðvikudaginn 19. klukkan 20.00 og þá ræði ég við Sigurjón Magnússon rithöfund um bók hans Endimörk heimsins.
Hvarvetna á Norðurlöndunum sýna ríkissjónvörp bandaríska þáttinn Homeland sem keppir við Downton Abbey sem einn vinsælasti sjónvarpsþáttur heims um þessar mundir. Hvers vegna skyldi ríkisútvarpið hafa farið á mis við þennan þátt? Söguþráðurinn er listlega spunninn og samtöl betri en almennt gerist í slíkum þáttum.
Lokaþáttur 2. hluta myndaflokks Homeland var frumsýndur að kvöldi síðasta sunnudags og hann birtist á næstunni í norrænu stöðvunum en þær eru ekki allar á sama staða í þáttaröðinni ef þannig má orða það.