31.12.2012

Verðalauna-Úlfar sendir kalda hátíðarkveðju

Í marga áratugi tíðkaðist að efnt var til virðulegrar athafnar af hálfu ríkisútvarpsins á gamlársdag þegar verðlaun úr rithöfundasjóði þess voru afhent. Var sagt rækilega frá athöfninni sem vakti þjóðarathygli og hlustuðu margir á ræðu verðlaunahafans.

Ég minnist þess frá tíð minni sem menntamálaráðherra að það var fastur liður á dagskránni eftir ríkisráðsfund að Bessastöðum á gamlársdag að fara í salinn á efstu hæð útvarpshússins við Efstaleiti og verða vitni að afhendingu rithöfundaverðlaunanna. Forseti Íslands lét sig ekki vanta og fór þetta allt fram með þeim hátíðarbrag sem hæfði athöfninni til heiðurs verðlaunahafa á síðasta degi ársins.

Fyrir nokkrum árum breyttist þetta eins og svo margt annað hjá ríkisútvarpinu. Margt hefur horfið sem gaf útvarpinu blæ viðurlegrar stofnunar. Nú kannast hún ekki lengur við sjálfa sig undir fullu nafni heldur styðst við skammstöfun á því og verðlaunin úr rithöfundasjóðnum eru ekki lengur veitt síðasta dag ársins á efstu hæðinni þaðan sem sást yfir borgina, sundin og til fjalla. Nú eru verðlaunin veitt á neðri jarðhæð útvarpshússins og að þessu sinni fimmtudaginn 20. desember. Vafalaust er þetta allt gert í sparnaðaskyni, hátíðarbragur verður að vísu seint metinn til fjár.

Breytingin á ytri umgjörðinni við afhendingu verðlaunanna segir að sjálfsögðu ekkert um listræna hæfileika þess sem þau hlýtur hverju sinni. Í ár er það Úlfar Þormóðsson (f. 1944) sem hefur helgað sig ritstörfum í um það bil tvo áratugi.

Úlfar flutti ávarp þegar hann þakkaði fyrir viðurkenninguna og sagði meðal annars:

„Upplausn er gróðrarstía óttans sem frá upphafi vega hefur verið einkaþjónn ófyrirleitinna mannkynsbraskara. Og er enn. Í síðustu viku las ég á netinu frásögn af tíðindum sem sögð höfðu verið í Ríkisútvarpinu skömmu áður. Þar í var þetta:

„Fréttin var í norður-kóreustíl. Hið eina sem skorti voru lofsamleg ummæli um leiðtogann mikla.“

Þessi og þvíumlík ummæli hljóta að vera skrifuð gegn betri vitund og til þess að draga kjark úr fréttamönnum, – til þess skapa tortryggni í garð Ríkisútvarpsins.“

Hin tilvitnuðu orð notaði Úlfar til að vara við engu öðru en „ófyrirleitnum mannkynsbröskurum“ sem ala á upplausn með því að skapa ótta. Þegar ég las ávarp Úlfars á netinu dró ég þá ályktun að hann hefði mildast mikið með árunum fyrst hann kippti sér svo mjög upp við hin tilvitnuðu orð. Hann hefði ekki kippst við vegna slíkrar setningar þegar hann lét að sér kveða fyrir Þjóðviljann og þá sem að honum stóðu. Þá kom mér til hugar að honum þætti ekki við hæfi að víkja að leiðtogum Norður-Kóreu á þennan veg, þeir ættu meiri virðingu skilið.

Tilvitnunin af netinu er af síðu minni úr dagbókarfærslu 15. desember þegar ég undraðist hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins sagði frá því sem meiriháttar árangri hjá Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri-grænna, að hann hefði fengið 199 atkvæði í forvali í kjördæmi sínu af 261 sem greidd voru. Mér fannst þetta satt að segja ekki neitt til að hrósa sigri yfir.  Fréttin í ríkisútvarpinu var hins vegar á þann veg sem ég lýsti meira í gamni en alvöru. Síst af öllu vakti fyrir mér að vekja ótta meðal viðkvæmra lesenda síðu minnar.

Þessi orð voru hvorki fest í dagbók mína gegn betri vitund né til þess að draga kjark úr fréttamönnum ríkisútvarpsins. Ég var ekki eini hlustandinn sem sá ástæðu til að vekja máls hvernig haldið var á fréttunum af hinu litla fylgi sem Steingrímur J. fékk. Fleiri en ég hafa lýst undrun sinni yfir því. Steingrímur J. vakti til dæmis sjálfur af slíkri nákvæmni yfir fréttum af úrslitunum að hann gerði athugasemd við frásögn Eyjunnar. Þar gerðust menn sekir um þá reginskyssu að telja um 40 ógild atkvæði með þegar þeir reiknuðu hlutfallslegt fylgi Steingríms J. í kosningunni. Hann vildi ekki sætta sig við það og sagðist hafa hlotið 90% gildra, greiddra atkvæða.

Skiljanlegt er að Úlfar hafi viljað þakka ríkisútvarpinu og nefndinni á þess vegum fyrir verðlaunin en langsótt er að leggja þannig út af hinum meinlausu orðum mínum að með þeim sé sáð ótta. Hræðslu við hvað? Ríkisútvarpið verður að þola gagnrýni eins og aðrir og því er veitt aðhald af mörgum. Enginn gerir það eins skipulega og Eiður Guðnason sem starfaði á stofnuninni í mörg ár. Hann lætur sitt ekki eftir liggja í von um að geta orðið þeim að liði sem vilja veg ríkisútvarpsins sem mestan.

Skrif mín hér á síðuna hafa oft vakið umræður á árinu og lagt hefur verið út af þeim á ýmsan hátt. Ummæli verðlaunahafa ríkisútvarpsins sýna að jafnvel á hátíðarstundu verða orð á síðunni til umhugsunar. Að segja skrif mín sýna að ég sé „ófyrirleitinn mannkynsbraskari“ sem stuðli að upplausn með því að ala á ótta er of langsótt og ætti jafnvel ekki heima í áramótaskaupinu, hitt ætti heima þar að hylla Steingrím J. Sigfússon í norður-kóreustíl.

Gleðilegt ár!