5.12.2012 23:20

Miðvikudagur 05. 12. 12.

Í dag ræddi ég við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um leið úr gjaldeyrishöftum. Páll hefur vel ígrundaða skoðun á vandanum. Hann telur að of mikið sé gert úr hættu á útstreymi fjár verði höftunum aflétt, mesta hættan sé kannski að Íslendingar ákveði sjálfir að flytja fé úr landi. Besta leiðin til að afnema höftin á skynsamlegan hátt sé að góð efnahagsstjórn sé hér á landi. Því fari víðsfjarri að svo sé núna. Þáttinn má næst sjá á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í kvöld hlustaði ég á Messías í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kórs Áskirkju og fjögurra einsöngvara í Eldborg undir stjórn Nicholas Kraemers. Flutningnum var mjög vel tekið. Að þessu sinni flytur þessi hópur listamanna Messías á tvennum tónleikum í Eldborg, Verkið var flutt þar á einum tónleikum í fyrra og var þá ekki unnt að koma til móts við alla sem vildu fá miða.

Framboðið á tónleikum í Reykjavík fyrir og um jólin jafnast á við það sem er í boði í milljónaborgum.