6.12.2012

Stjórnlög án siðbótar

Salvör Nordal sat í stjórnlagaráði sem formaður þess. Hún skilaði af sér skýrslu og tillögum ráðsins til alþingis 29. júlí 2011. Hún hefur frá þeim tíma ekki alltaf verið samstiga þeim sem láta óðagot ráða við afgreiðslu tillagnanna í stað þess að stofna til efnislegra umræðna um málið. Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við Salvöru um málið miðvikudaginn 5. desember og þá taldi hún að málið væri „komið í of djúpan átakafarveg“ á alþingi og því þyrfti að breyta. Salvör sagði:

„Ég held að eina leiðin núna, miðað við það hve skammur tími er til kosninga, að það verði að finna nýjar leiðir. Menn verði að setjast niður og hugsa, hvernig getum við náð fram einhverjum breytingum á stjórnarskránni á þessum tíma? Hvað er skynsamlegt? Hvað eru menn sammála um að gera? Búa til ferli sem kannski nær fram á næsta kjörtímabil í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég held að það sé að verða nauðsynlegt og það er kalt mat að með þessu áframhaldi muni þetta ekki nást fyrir kosningar.“

Sjónarsvið Salvarar er of þröngt þegar hún talar um „átakafarveg“ á alþingi. Deilur um stjórnarskrármálið ná langt út fyrir alþingi. Það eru ekki síst fræðimenn utan þings sem gagnrýna efnisatriði stjórnarskrárfrumvarpsins sem lagt hefur verið fram og er nú til umsagnar. Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. desember er sagt frá fundi fræðimanna í hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 5. desember, öðrum fundi í röð á þeim vettvangi. Þar flytur hver sérfræðingurinn eftir annan ræðu og lýsir með faglegum rökum í hvert óefni kunni að stefna verði ekki tekið á málum á annan hátt en gert er í frumvarpinu sem meirihluti þingnefndarinnar hefur sent frá sér og er nú til umsagnar innan tímamarka sem eru til skammar þegar um svo viðamikið mál er að ræða.

Spurningarnar sem Salvör Nordal nefnir hér að ofan eru í anda þess sem við sjálfstæðismenn spurðum á þingi vorið 2009 eftir að Jóhanna Sigurðardóttir setti stjórnarskrármálið á oddinn fyrir kosningarnar 25. apríl og vildi þröngva því í gegnum alþingi á skömmum tíma meðal annars til að taka stjórnarskrárvaldið af þinginu. Þá naut Jóhanna stuðnings Framsóknarflokksins við atlöguna að stjórnarskránni. Henni lauk án þess að nokkrar breytingar yrðu gerðar hefði þó mátt ná samkomulagi um breytingar hefði Jóhanna haft vilja til þess. Hún mátti heyra minnst á neitt samkomulag og síst af öllu við hinn hataða Sjálfstæðisflokk. Hið sama ræður enn för hjá Jóhönnu. Hún vill allt eins og 2009 þegar hún sat að lokum uppi með ekkert. Allt stefnir til sömu áttar núna.

Málatilbúnaður Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnarskrármálinu er reistur á kórvillum. Henni tekst ekki að breyta stjórnarskránni í krafti rangfærslna. Vorið 2009 vildi hún taka stjórnarskrárvaldið frá alþingi. Nú vill hún ýta stjórnarskránni frá 1944 til hliðar. Vorið 2009 var talað illa um getu þingmanna til að vinna að stjórnarskrármálum. Nú er neikvæði áróðurinn um lýðveldisstjórnarskrána og því meðal annars haldið ranglega fram að hún hafi átt að gilda til bráðabirgða.

Málum er þó ekki eins háttað nú og 2009 þegar litið er til afstöðu fræðimanna. Þegar ég tók þátt í umræðum um stjórnarskrármálið í þingnefnd vorið 2009 fór ekki á milli mála að sumir sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar töldu óhjákvæmilegt að breyta einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar og þau rök eru í fullu gildi að skynsamlegt sé að endurskoða stjórnarskrá til að hún úreldist ekki. Verði venju- eða hefðarréttur of ríkur innan stjórnskipunarinnar kallar það oft á óvissu eða óvænt atvik. Þetta kom til dæmis í ljós 2004, á 60 ára afmæli lýðveldisstjórnarskrárinnar, þegar Ólafur Ragnar „virkjaði“ 26. gr. stjórnarskrárinnar og stöðvaði framgang fjölmiðlalaganna. Fram til þess tíma hafði verið talið að engum forseta dytti í hug að beita þessu ákvæði.

Af opinberum umræðum nú verður ekki dregin önnur ályktun en sú að fræðimenn telji alvarlegt og varasamt að samþykkja frumvarpið sem nú liggur fyrir til umsagnar á vegum stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis. Megingagnrýnin er reist á áhættunni sem tekin er með samþykkt á tillögum sem ekki hafa verið ræddar til hlítar. Þá hafi ekki verið lagt neit mat á heildaráhrif hinna róttæku breytinga.

Í Morgunblaðinu 6. desember er bregður Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ljósi á hin viðkvæmu efni sem um er að ræða. Í blaðinu segir:

„Stefanía Óskarsdóttir lektor segir að frumvarp um nýja stjórnarskrá feli í sér stjórnskipan í anda forsetaþingræðis, þ.e. framkvæmdavaldinu skipt milli forseta og ríkisstjórnar. Ríkisstjórnir muni í framtíðinni mögulega þurfa að reiða sig á fljótandi meirihluta ef stjórnmálaflokkar veikjast eins og ýmislegt bendi til t.d. vegna ákvæða um persónukjör. Hún segir það vissulega þýða aukna valddreifingu sem geti verið kostur en hinsvegar muni slíkt gera ríkisstjórnum erfiðara að koma stefnumálum sínum í framkvæmd sem kunni að veikja enn frekar tiltrú á fulltrúalýðræði.

 „Spurningin er hvort tillögurnar sem lagt er upp með nái þeim tilgangi sínum að efla trú manna á lýðræði,“ sagði Stefanía á fundinum í gær.“

 

Hver hefur hag af því að taka áhættu við æðstu stjórn landsins á borð við þá sem Stefanía lýsir? Til hvers? Hverjum er það þóknanlegt?

Innlendum umsagnaraðilum er ætlaður ótrúlega skammur tími til að gefa álit á stjórnlagatillögunum. Þá er einnig ætlunin að gefa Feneyjanefndinni á vegum Evrópuráðsins skamman tíma til að veita heildarumsögn um frumvarpið. Kapphlaupið snýst um að hespa einhverju af fyrir kosningar sem enginn veit í raun hvað er því að ekki hefur enn reynt neitt á vilja eða skoðanir innan stjórnarflokkanna um málið. Verða þeir sammála um þetta þegar þeir deila um öll önnur mál?

Öllum er fyrir löngu orðið ljóst að glæfraleg stjórn á fjármálum innan bankakerfisins fram á haust 2008 átti ekki rætur að rekja til stjórnarskrárinnar frá 1944. Hafði í raun ekkert með hana að gera. Allt tal um það er uppspuni og rugl.

Salvör Nordal var kölluð til sem siðfræðingur af rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu og ritaði hluta af skýrslu nefndarinnar. Ég hef gagnrýnt ýmislegt í niðurstöðum siðferðihlutans í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Ég tel hins vegar að Salvör hafi rétt fyrir sér þegar hún varar við vinnubrögðum alþingis við breytingar á stjórnarskránni og segir við fréttastofu ríkisútvarpsins:

„Mér sýnist þingið svolítið vera að gera það núna [að fara framhjá reglum um vandaða málsmeðferð], með því að vera með stutta umsagnarfresti, hraða málinu  í gegnum þingið.  Ég held að menn þurfi að lesa bæði það sem sagt er um einkavæðinguna í rannsóknarskýrslunni og kannski fleiri dæmi sem þar koma fram til að sýna að við viljum læra af reynslu fortíðarinnar.“

Þeir sem kjörnir voru til þings með siðbót á vörunum vorið 2009 sitja nú undir ámæli þeirra sem fjallað hafa fræðilega um nauðsyn siðbótar fyrir að ætla að hundsa allar siðbótartillögur þegar að endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar kemur.