Þriðjudagur 04. 12. 12
Í dag efndi Varðberg til fundar í Odda, Háskóla Íslands, um voðaverk gegn þjóðaröryggi. Þar flutti Sture Vang frá embætti ríkislögreglustjórans í Noregi erindi um voðaverkið 22. 07. 11 þegar Anders Breivik lagði bíl með sprengju í anddyri forsætisráðuneytisins í Osló og olli gífurlegu tjóni. Síðan hélt hann í Útey og réðist þar með skotvopnum á ungt fólk. Hann felldi 77 manns. Hér má lesa frásögn af erindi Vangs. Þegar hann hafði lokið máli sínu ræddi Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, málið frá sjónarhóli íslenskra lögregluyfirvalda. Hér má lesa frásögn af ræðu Jóns.
Sture Vang sagði að gagnrýni á viðbrögð norsku lögreglunnar vegna voðaverkanna ætti við rök að styðjast og unnið væri að endurbótum, hvítbók um nauðsynlegar úrbætur væri væntanleg í febrúar. Það mundi kosta nokkur hundruð milljónir norskra króna að hrinda þeim í framkvæmd. Í Noregi réð lögreglan til dæmis ekki yfir nægilega góðu fjarskiptakerfi til að takast á við atburð af þessu tagi.
Hér á landi er fjarskiptakerfi lögreglunnar öflugra en í Noregi. Á hinn bóginn þarf að taka risaskref við að styrkja lögregluna til að hún geti tekist á við ný viðfangsefni sem við blasa ef mark er tekið á mati greiningardeildar lögreglunnar. Fyrsta verkefnið er þó að tryggja sjálfan grunn löggæslu í landinu en að honum er nú vegið vegna fjárskorts.
Síðan er sérstakt umhugsunarefni að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga sem þrengir rannsóknarheimildir lögreglu auk þess sem hann leggst alfarið gegn heimild til að stunda forvirkar rannsóknir. Í skýrslu um voðaverkin í Osló er lögð áhersla á gildi slíkra rannsókna. Allt bendir til að markvisst sé unnið að því að veikja lögregluna og starfsgrundvöll hennar.