16.12.2012 18:50

Sunnudagur 16. 12. 12.

Fyrir þá sem til þekkja var furðulegt að heyra Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra kasta allri ábyrgð á vatnasviði og lífríki Þingvallavatns á herðar Þingvallanefndar og forsætisráðuneytisins í samtali við fréttamann ríkisútvarpsins að kvöldi sunnudags 16. desember. Málum er alls ekki háttað eins og umhverfisráðherra heldur.

Hinn 13. júlí 2006 gaf forveri Svandísar, Jónína Bjartmarz, út reglugerð 650/2006 um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Þar segir: „Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2005, um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Reglugerðin er jafnframt sett með stoð í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.“ Allt er þetta á verksviði umhverfisráðherra.

Hafi flokkssysturnar Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, og Svandís Svavarsdóttir komið sér saman um annað en í lögum og reglum um verndun Þingvallavatns segir fara þær einfaldlega á svig við landslög.

Ábyrgð Þingvallanefndar nær til þess hluta strandar vatnsins sem er innan þjóðgarðsins og þess hluta vatnsins sem er innan hans. Forsætisráðuneytið á ekki beina aðild að þessu máli. Umhverfisráðuneytið ber hina stjórnsýslulegu ábyrgð vegna Þingvallavatns og verndunar þess.

Hvers vegna vill Svandís Svavarsdóttir ekki kannast við pólitíska ábyrgð sína í þessu máli?

Hitt er síðan í samræmi við annað að fréttamenn ríkisútvarpsins trúa því eins og nýju neti sem ráðherrar segja við þá og hafa ekki fyrir að kanna hvort farið sé með rétt mál.