8.12.2012 22:41

Laugardagur 08. 12. 12.

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið, viðtal við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, og má sjá það hér.

Kyoto-samningurinn var í dag framlengdur til 2020 og látið er eins og í því fælist markverður árangur í loftslagsmálum. Doha-ráðstefnu um aðgerðir gegn hlýnun jarðar lauk á þennan hátt í dag en þar var hver höndin upp á móti annarri. Stórveldi eins og Bandaríkin, Kína og Indland hafa ekki skuldbundið sig til að hlíta Kyoto-samningnum. Hann er því mun minna virði en af er látið, samningurinn var samþykktur 11. desember 1997 í japönsku borginni Kyoto.

Áhugi á umhverfismálum hefur minnkað undanfarin ár. Stjórnmálamenn eru með hugann við annað. Þau settu hvorki svip á forsetakosningar í Bandaríkjunum né Frakklandi á þessu ári. Hér á landi hafa vinstri-grænir notað umhverfismál til að tefja fyrir ákvörðunum um ýmsar framkvæmdir. Þeir munu þó ekki tala mikið um það skemmdarstarf í komandi kosningabaráttu frekar en framlag sitt til ESB-aðildar.

Í dag skrifaði ég leiðara á Evrópuvaktina um grein sem sr. Örn Bárður Jónsson birti í Fréttablaðinu í dag þar sem hann hóf sjálfan sig og aðra stjórnlagaráðsliða til hæstu hæða vegna framlags þeirra til Íslandssögunnar. Hann telur afrekið og afreksmennina ekki metna að verðleikum og er reiður. Honum er sérstaklega í nöp við fræðimenn sem hafa gert athugasemdir við afraksturinn frá stjórnlagaráði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafði það til málanna að leggja í dag að stjórnarskrármálið yrði fyrsta mál á dagskrá alþingis eftir jólaleyfi! Hún vildi samkomulag en þó ekki um lægsta samnefnara. Þetta er furðutal hjá ráðherra sem hefur ekkert vald lengur á stjórnarskrármálinu og hefur aldrei lýst neinni skoðun á því hvað hún vill að standi í nýrri stjórnarskrá. Hver er samnefnarinn í málinu að mati Jóhönnu?  Ef hann er að kasta lýðveldisstjórnarskránni er málið jafn dauðadæmt núna í höndum Jóhönnu og þegar hún vildi fyrir tæpum fjórum árum svipta alþingi rétti til að breyta stjórnarskránni.