Mánudagur 10. 12. 12.
Í kvöld klukkan 20.30 er fyrsti bókaþáttur minn á ÍNN. Ég ræði við Gunnar Þór Bjarnason um bók hans Upp með fánann! Hún fjallar um uppkastið 1908 og hin hörðu átök vegna þess. Fróðleg og vönduð bók.
Undir kvöld fór ég á fund manna í utanríkismálanefnd alþingis. Þangað hafði ég verið boðaður til að segja álit mitt á 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs um framsal ríkisvalds eða fullveldis til alþjóðastofnana. Ein helsta efnislega ástæðan fyrir að uppkastið 1908 náði ekki fram að ganga var að þar var ekki vikið að fullveldinu, það kom ekki til sögunnar fyrr en með sambandslögunum 1918.
Nú er svo komið að almennt er talið nauðsynlegt að setja ákvæði í stjórnarskrána sem taka mið af nýrri stöðu í alþjóðasamstarfi. Vegna aðildar að EES og Schengen-samstarfinu mátu sérfræðingar hvort brotið yrði gegn stjórnarskránni með aðildinni. Niðurstaðan varð í báðum tilvikum að svo væri ekki. Síðan hefur samstarfið innan EES þróast á þann veg að sérfræðingar telja óhjákvæmilegt að huga að stjórnarskrárheimildum vegna aðildar að nýjum stofnunum undir EES-hattinum.
Ég er sammála því mati að huga eigi að breytingum á stjórnarskránni vegna alþjóðasamstarfs. Tillagan í 111. gr. stjórnlagaráðsins er ekki boðleg í þessu efni. Ég tel að huga beri að því að setja ákvæði í stjórnarskrána sem heimili aðild að EES og Schengen enda sé ákvæðið rökstutt á þann veg að ekki fari á milli mála við hvað er átt.
Ég vék að því á fundinum í utanríkismálanefnd að ég vildi ekki segja endanlegt álit mitt á þessu efni fyrr en ég sæi greinargerð sem boðað var 9. janúar 2012 að Björg Thorarensen prófessor mundi semja fyrir þá sem ræða við ESB um aðild. Mér þætti undarlegt að þetta álit lægi ekki fyrir við meðferð þessa máls. Þá kom í ljós að nefndin hafði álit Bjargar í fórum sínum. Hvers vegna er það ekki birt? Hvers vegna eru þeir sem boðaðir eru á fund nefndarinnar til að fjalla um þetta mál ekki upplýstir um lykilskjal af þessu tagi?