Þriðjudagur 27. 11. 12
Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands í annað sinn frá hruni bankanna haustið 2008 og gaf okkur góð ráð í hátíðarsal Háskóla Íslands. Sagt er að salurinn hafi verið þéttsetinn. Persson er góður ræðumaður og reyndist þjóð sinni ágætur forsætisráðherra. Hann reyndist hins vegar hafa rangt fyrir sér um afstöðu hennar til evrunnar. Persson barðist eindregið fyrir upptöku evru í Svíþjóð.
Hann tapaði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt var til um miðjan september 2003. Þá greiddu 56,1% atkvæði gegn upptöku evru en 41,8% studdu evruna, þátttaka í atkvæðagreiðslunni var mikil, 81,2%. Í ræðum Perssons fyrir kjördag fór hann mikinn og hafði uppi stór orð um hættuna sem steðjaði að Svíum segðu þeir nei. Hann talaði á svipaðan hátt og þeir gerðu hér sem sögðu að allt mundi fara til fjandans ef Íslendingar höfnuðu Icesave-samningunum.
Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sat Persson fyrir svörum fréttamanna á fundi. Þá spurði einn: Forsætisráðherra, fyrir kjördag boðaðir þú að hér yrði allt í kalda koli ef menn segðu nei við evrunni. Hvenær hefjast þær hörmungar? Persson svaraði: Nú, á ég að hafa sagt það, ég man bara ekki eftir því.
Eitt af því sem Persson sagði þegar hann kom hér í fyrra skiptið til að stappa stálinu í okkur Íslendinga var að hið vitlausasta sem menn gerðu á stundu sem þessari væri að rjúfa þing og ganga til kosninga. Að þessu leyti reyndist hann sannspár. Hvernig sem á málið er litið getur enginn sagt að það hafi verið heppilegast fyrir Íslendinga að Ólafur Ragnar leyfði Jóhönnu og Steingrími J. að mynda minnihlutastjórn og hefja síðan þá sundrungariðju sem þau hafa stundað og ekki er enn lokið. Sundrungin er svo mikil að Ólafur Ragnar taldi sig ekki eiga annarra kosta völ en bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseti. Þjóðin yrði þó að eiga eitthvert sameiningartákn!
Göran Persson segir að Íslendingar eigi að ljúka viðræðum við ESB með niðurstöðu. Þetta bendir til að hann viti ekki um hvað málið snýst í viðræðum Íslands og ESB. Þá sé hann álíka mikið úti að aka um afstöðu Íslendinga og um afstöðu Svía árið 2003 þegar hann taldi að þeir mundu samþykkja upptöku evru. Enn þann dag í dag neitar sænska ríkisstjórnin að taka þátt í ERM II sem er fyrsta skref til upptöku evru. Að reglum ESB er Svíum skylt að nota evru, aðeins Bretar og Danir hafa frelsi frá Brussel til að nota eigin mynt.