29.11.2012 19:55

Fimmtudagur 29. 11. 12

Sat í dag málþing SIPRI hér í Stokkhólmi þar sem rætt var um breytingar á Norðurskautsráðinu þegar formennska í því flyst frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku í maí 2013 og verður þar til 2017, fyrst í höndum Kanadamanna og síðan Bandaríkjamanna. Merkilegt var að hlusta á útlistanir á óskum Kína og ESB um fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsáðinu og hve mikill samhljómur er í rökum þeirra. Ég lét undir höfuð leggjast að benda á, að bæði Kína og ESB sækjast eftir auknum ítökum á Íslandi til að styrkja stöðu sína á norðurslóðum. Ég er ekki sannfærður um að aðild Íslands að ESB mundi á nokkurn hátt styrkja stöðu Íslendinga gagnvart ásókn Kínverja. Sumir aðildarsinnar á Íslandi sýnast þeirrar skoðunar.

Fréttir af frumvarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að takmarka rannsóknarheimildir lögreglunnar eru í samræmi við stefnu VG um að gera lögreglu eins máttlitla og frekast er unnt. Þá samrýmast þessar tillögur Ögmundar einnig vel þvermóðsku Samfylkingarinnar þegar ég vildi styrkja lögregluna á sínum tíma og þingflokkurinn Samfylkingarinnar brá fæti fyrir alla marktæka viðleitni til að skapa lögreglu betri skilyrði en áður til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Hvert frumvarpið eftir annað sem miðaði að vernd almennra borgara var tekið í gíslingu af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eða stefnu minni, meðal annars innan Framsóknarflokksins, til að ganga í augun á einhverjum þrýstihópum sem reistu skoðanir sínar á misskilinni umhyggju fyrir minnihlutahópum eða jafnvel femínisma.

Ég skil ekki að nokkrum hafi dottið í hug að Ögmundur Jónasson mundi skila af sér sem innanríkisráðherra með þann vitnisburð að hann hefði eflt og styrkt lögregluna í landinu með því að auka öryggi lögreglumanna eða auðvelda þeim að takast á við sífellt hættulegri brotastarfsemi með auknum rannsóknarheimildum. Ekkert slíkt vakir fyrir honum enda mundi hann með því brjóta á bága við stefnu VG. Þetta telja ráðherrar VG sér skylt að framkvæma með vísan til stefnu flokks síns á sama tíma og þeir svíkja allt sem þeir hafa sagt um ESB-aðild og andstöðu sína við hana.