20.12.2012 16:20

Fimmtudagur 20. 12. 12.

Í kvöld klukkan 21.30 er síðasti bókaþáttur minn á ÍNN að sinni. Þar ræði ég við Helgu Birgisdóttur doktorsnema um bókina um Nonna eftir Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing.

Viðtal mitt við Sigurjón Magnússon rithöfund um bók hans Endimörk heimsins er komið á netið og má sjá það hér.

Rúmum sólarhring eftir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Ŝtefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hreyktu sér af því á ríkjaráðstefnunni í Brussel hve allt hefði gengið vel og hratt fyrir sig í aðildarviðræðunum við Ísland leyfir Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, sér að segja við fréttastofu ríkisútvarpsins að hann sé „vonsvikinn með hversu langan tíma aðildarviðræður Evrópusambandsins við Ísland hafi tekið“.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Össur bregst við þessari yfirlýsingu ráðherrans sem hefur verið utanríkisráðherra  lands síns síðan 2005, árið eftir að Eistland gekk í ESB. Vorið 2005 fórum við Össur saman í Evrópunefnd til Brussel og hittum þá Ollie Rehn, þáverandi stækkunarstjóra ESB. Hann sagði við okkur nefndarmenn að það þyrfti ekki nema nokkra menn til að ræða við Íslendinga í nokkra mánuði til að ganga frá aðild Íslands að ESB. Það yrði mun minna mál en til dæmis að ganga frá aðild Eistlands að ESB.

Við upphaf aðildarferlisins hélt Össur örugglega að orð Rehns um hinn skamma tíma mundu standa. Annað hefur komið í ljós. Össur hefur hins vegar jafnan látið eins og allt gengi eins og best yrði á kosið enda vill hann ekki styggja Füle eða aðra Brusselmenn. Hinn gamalreyndi utanríkisráðherra Eistlands blæs á allt slíkt og lýsir hlutunum eins og hann sér þá.

Urmas Paet gagnrýnir ESB en sér ekkert athugavert við að Íslendingar skoði hug sinn til viðræðnanna og málið sé borið undir þjóðaratkvæði. Á ruv.is segir:

„Paet á ekki von á hörðum viðbrögðum frá Evrópusambandinu ef samþykkt verði að leggja áframhaldandi aðildarviðræður í þjóðaratkvæði eins og meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis vilji. Öll aðildarríki hafi skilning á því hvernig ákvarðanir eru teknar á Íslandi og beri virðingu fyrir því.“