Mánudagur 03. 12. 12
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S), einn varaforseta alþingis, tók af skarið í dag um að ekki hefði verið gert neitt samkomulag um hvernig standa ætti að 2. umræðu fjárlagafumvarpsins á þingi. Björn Valur Gíslason (VG) og Lúðvík Geirsson (SF) báru fyrir sig slíkt samkomulag og þeir hefðu verið að framfylgja því með forkastanlegri framgöngu og spjöldum með áletruninni MÁLÞÓF að kvöldi föstudags 30. nóvember fyrir framan sjónvarpsmyndavélina í þingsalnum. Þetta gerir hlut þeirra Björns Vals og Lúðvíks enn verri en áður.
Nú er ljóst að eftir að Huang Nubo misheppnaðist að beita sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi fyrir sig að hann hefur rekið enn einn fleyginn milli Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar eins og lýst er hér á Evrópuvaktinni. VG má ekki við frekari klofningi en honum er þröngvað upp á flokkinn vegna undirlægjuháttar Steingríms J. gagnvart Samfylkingunni sem er á góðri leið til að gera flokkinn minni en Bjarta framtíð Guðmunds Steingrímssonar.
Stjórnarhættir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru á þann veg að eina leiðin til að losna undan okinu sem hún leggur á þjóðina er að rjúfa þing og efna til kosninga strax á nýju ári.