13.12.2012 17:55

Fimmtudagur 13. 12. 12.


Deilur stjórnmálafræðinga vegna stjórnlagatillagnanna magnast. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, gagnrýnir alla þætti stjórnarskrármálsins harðlega í Morgunblaðinu í dag. Eiríkur Bergmann Einarsson, háskólanum á Bifröst og stjórnlagaráðsmaður, snýst til varnar á vefsíðunni Eyjunni og segir meðal annars:

„Nú heldur virðulegur stjórnmálafræðiprófessor því fram að Stjórnlagaráð hafi verið umboðslaus kaffisamkoma fræga fólksins þegar hið rétta er að það væri bæði þjóðkjörið og svo þingskipað í kjölfar inngrips hæstaréttardómaranna. Satt að segja er leitun að þeim opinbera hópi sem hefur haft viðameira lýðræðislegt umboð – sem svo var stimplað af sjálfri þjóðinni í einu allsherjaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi efnir til á lýðveldistímanum.“

Þetta er ótrúleg samsuða hjá Eiríki Bergmann og í ætt við sumt annað sem frá stjórnlagaráðsmönnum hefur komið.  Hann segir að ráðið hafi bæði verið „þjóðkjörið og þingskipað í kjölfar inngrips hæstaréttardómaranna“. Að maður sem sýslar við stjórnlögin tali á þennan veg sannar aðeins algjört virðingarleysi hans fyrir lögum og rétti þegar hann á sjálfur í hlut. Hæstiréttur ákvað að kjör Eiríks Bergmanns og annarra væri ógilt – aldrei fyrr hafa kosningar af þessu tagi verið ógiltar vegna þess hve illa var að framkvæmdinni staðið. Kosningarnar voru ekki endurteknar heldur tók fólkið að sér að setjast umboðslaust frá almenningi í stjórnlagaráð í umboði alþingis.  Engu er líkara en Eiríkur Bergmann telji sig hafa tvöfalt lýðræðislegt umboð. Hvílík fásinna! Síðan túlkar hann skoðanakönnunina sem alþíngi ákvað að verja 250 til 300 milljónum til sem gæðastimpil á pakkann sem varð til í bögglauppboði innan stjórnlagaráðs. Þegar innihald þessa pakka er skoðað kemur í ljós að það er almennt ónothæft.