29.12.2012 19:36

Laugardagur 29. 12. 12.

Nú er viðtalsþáttur minn á ÍNN við Helgu Birgisdóttur um  bókina Nonna komin á netið og má sjá hann hér. 

Nýjasta hefti af Þjóðmálum kom út skömmu fyrir jól. Þar er að venju mikið af fróðlegu efni um stjórnmál auk þess sem umsagnir eru birtar um nokkrar jólabækur.

François Hollande ætlaði að slá sér upp á 75% skatti á auðmenn yrði hann forseti í Frakklandi. Hann hlut kjör í embættið og síðan fengu flokksbræður hans úr flokki sósíalista hreinan meirihluta á þingi í júní. Forsetinn og þingmenn brettu upp ermarnar og tóku til við að breyta sköttum. Áformin um 75% skattin voru lögfest. Stjórnarandstaðan ákvað að biðja stjórnlagaráð Frakklands  „hina vitru“ eins og Frakkar segja um álit á skattinum á auðmenn. Ráðið gaf út úrskurð sinn í dag og ógilti lögin um 75% skattinn, hann bryti gegn jafnræðisreglum.

Tilgangur skattsins var að ná til einstaklinga sem hefðu 1 milljón evra eða meira í árstekjur. Skatturinn sneri að einstaklingum en ekki sameiginlegum tekjum hjóna eða sambúðarfólks. Hjón með 900 þús. evrur í tekjur hvort sluppu, væri einn á öðru heimili með 1,2 milljón evrur í árstekjur yrði hann að greiða skattinn án tillits til tekjuöflunar maka.

Þessi niðurstaða er enn eitt áfallið fyrir Hollande en álit Frakka á honum hefur minnkað jafnt og þétt. Sósíalistar geta þakkað sínu sæla fyrir vandræðin í stóra stjórnarandstöðuflokknum, UMP, mið-hægriflokknum þar sem tekist er á um leiðtogasætið eftir brotthvarf Nicolas Sarkozys af ótrúlegri hörku. Kosningin verður endurekin haustið 2013.

Er í raun ótrúlegt að franskir sósíalistar hafi ekki búið þannig um lögfestingu á einu helsta kosningamáli sínu að það stæðist stjórnarskrána. Vandræði vinstri stjórnarinnar í Frakklandi eru í ætt við vandræðaganginn hjá vinstri stjórninni á Íslandi.