18.12.2012 21:25

Þriðjudagur 18. 12. 12.

Fór síðdegis i heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og flutti þar fróðleik um qi gong á kyrrðardögum sem eru í boði samhliða almennri starfsemi í stofnuninni þessa síðustu viku fyrir jól. Kyrrðardagar og qi gong falla vel saman eins og ég hef margreynt í Skálholti. Hjá NLFÍ í Hveragerði er aðstaða ekki síðri til að nýta sér æfingarnar og hugmyndafræðina á bakvið qi gong.

Æfingarnar hafa náð flugi á Vesturlöndum og ekki síst í Bandaríkjunum þar sem litið er á qi gong sem hluta af heilbrigðiskerfinu, bæði forvarnarhluta en einnig sem lið í lækningum. Eftir að qi gong læknar í Kína kynntust áhuga Bandaríkjamanna á að nýta sér kínverska læknislist hafa margir læknar frá Kína flust til Bandaríkjanna. Þar hafa einnig margir lagt mikið af mörkum til að kynna qi gong meðal vestrænna lækna og má þar nefna Bandaríkjamanninn Kenneth Cohen sem hefur komið þrisvar sinnum hingað til lands og er væntanlegur í fjórða sinn í 23. til 25. ágúst 2013 í samvinnu við Aflinn, félag qi gong iðkenda. Koma Cohens verður kynnt nánar síðar en þeir sem vilja forvitnast um komu hans og hvernig námskeiðum í tengslum við hana verður háttað geta hæglega sent mér fyrirspurn á bjorn@bjorn.is eða með því að nota fyrirspurnakerfið hér á síðunni.