Sunnudagur 30. 12. 12.
Conrad Black átti á sínum tíma The Daily Telegraph í London og blöð um allan heim en var sakaður um að halda ekki rétt á fjármálum hlutafélaga sinna. Hann var dæmdur í fangelsi í Bandaríkjunum en hefur nú tekið út dóm sinn og hafið baráttu til að rétta hlut sinn á opinberum vettvangi. Hann telur sig aldrei hafa gerst sekan um neitt ólögmætt.
Fall hans var mikið eins og sést af nýrri bók hans Matter of Principle. Ég kynntist Black lítillega á sínum tíma og þótti hann ekki allskostar viðfelldinn. Hann var harðskeyttur blaðakóngur og lifði og hræðrist meðal fólks á æðstu stigum í stjórnmálum og fjármálum í Kanada, Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem hann var aðlaður.
Þegar skýrt var frá að Black hefði verið sviptur forystu í fyrirtækjum sínum hófu fjölmiðlar að fjalla um hann á þann hátt sem honum þótti með öllu ósæmilegur. Hann velti fyrir sér að höfða meiðyrðamál en hætti við og segir: „As I was almost instantly without reputation I was practically unable to sue anyone.“ – Þar sem virðing mín hvarf svo til samstundis var í raun ógerlegt fyrir mig að stefna nokkrum. –
Hér á landi telur fésýslumaður, dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og ákærður fyrir önnur brot, sig hafa æru að verja vegna prentvillu og dómari tekur undir með honum. Á næsta ári kemur í ljós hvort hæstiréttur sé sömu skoðunar.