14.12.2012 23:50

Föstudagur 14. 12. 12.

Framkoma Steingríms J. Sigfússonar í garð Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í Spegli og Kastljósi ríkisútvarpsins í gær var ofsafengin. Hún minnti mig á atvikið sem lýst er hér og gerðist fyrir fjórum árum.

Þá kom upp í hugann að hinn 11. desember hvatti Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, Steingrím J. til að mótmæla aðdróttunum Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, í garð Íslendinga vegna makríldeilunnar. Gunnar Bragi benti á að Damanaki færi með rangt mál.

Steingrímur J. birtist þá í ræðustól alþingis sem prúður friðarins maður. Hann sagði að Damanaki hefði stundað „hefðbundinn umkenningarleik“ en mestu skipti fyrir Íslendinga að „standa fast í fæturna“ við samningaborðið og það væri mikilvægara en að grípa til „hreystiyfirlýsinga og munnbrúks“.

Þannig talaði Steingrímur J. þegar hann var hvattur til að standa á rétti Íslendinga gagnvart ESB í makrílmálinu. Þegar hann greip til varna gegn Gylfa Arnbjörnssyni sparaði Steingrímur J. hvorki „hreystiyfirlýsingar né munnbrúk“ hann lýsti Gylfa sem ósannindamanni og að hann kynni ekki mannasiði eins og lesa má hér hjá Óla Birni Kárasyni. 

Óvildin í garð Gylfa og ASÍ undir hans forystu leyndi sér ekki. Allt annað viðmót var í garð Damanaki og ESB sem sannar aðeins að Steingrímur J. er ESB-sinni inn við beinið.