1.12.2012 21:21

Laugardagur 01. 12. 12

Flugum heim frá Stokkhólmi í dag með Icelandair og allt var á áætlun. Á leiðinni út til Arlanda-flugvallar var snjór yfir öllu en auð jörð frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.

Málþing SIPRI um þróun mála innan Norðurskautsráðsins og á norðurslóðum var eitt af ótalmörgum  alþjóðlegum fundum sem efnt er til um þessar mundir um málefni norðurslóða. Þarna var sérstaklega rætt um Norðurskaustráðið á þeim tímamótum þegar formennska í ráðherraráði þess færist frá Norðurlöndunum til Norður-Ameríku.

Augljóst er að mikilvæg þáttaskil verða í starfsemi ráðsins með ráðningu Magnúsar Jóhannessonar sem forstjóra skrifstofu ráðsins í Tromsö. Magnús er með reynslu af sviði umhverfismála og siglingaröryggis. Það fellur að hefðbundnum verkefnum Norðurskautsráðsins. Á málþingi SIPRI kom hins vegar fram að þróa yrði ráðið á þann veg að það yrði vettvangur til að skapa traust á milli þjóðanna á sviði hernaðarlegra samskipta (Confidence Building Measures, CBMs).

Þessi áhersla á CBMs bendir til að umræðurnar um að ekki þurfi að hafa áhyggjur af hernaðarlegum umsvifum á svæðinu séu að taka nýja stefnu, það sé þrátt fyrir allt ástæða til að huga að þeim þætti eins og öðrum í samskiptum þjóðanna.