23.8.1997 0:00

Laugardagur 23.8.1997

Laugardaginn 23. ágúst fór ég í til Hveragerðis og skoðaði hinn glæsilega Listaskála Einars Hákonarsonar listmálara þar. Þarf mikinn stórhug til að ráðast í slíka framkvæmd, en aðstaðan, sem Einar hefur skapað er glæsileg. Frá Hveragerði fórum við og skoðuðum Húsið á Eyrarbakka. Um nokkurt árabil var það í eign Ragnhildar Pétursdóttur, ömmusystur minnar, og Halldórs Þorsteinssonar , eiginmanns hennar, og minnist ég þess úr barnæsku að hafa farið þangað með foreldrum mínum. Nú hefur Húsið verið fært í upprunalegt horf og þar hefur byggðasafni verið komið fyrir og er ánægjulegt að skoða það. Síðan heldum við í Sögusetrið á Hvolsvelli, þar sem er vettvangur þeirra, sem vilja á markvissan hátt nýta menningu þjóðarinnar og sögu til hagsældar fyrir byggðarlag sitt. Með fyrsta verkefni sínu vekur Sögusetrið athygli á því, að aðalsögusvið Njálu er í Rangárþingi. Var ánægjulegulegt að skoða þessa sýningu í Sögusetrinu. Hún gæti orðið öðrum fyrirmynd um það, hvernig unnt er að nýta sér söguna til að vekja menningarlegan áhuga á landslaginu. Við skoðuðum þessa þrjá staði á of skömmum tíma, en þeir minntu okkur á, að unnt er að ferðast um landið allt og fara víða til að fræðast um fortíð og samtíð.