17.5.2014 23:40

Laugardagur 17. 05. 14

Nú er ein vika þar til kosið verður til ESB-þingsins og alls kyns mál eru á döfinni í ESB-ríkjunum 28 til að hafa áhrif á kjósendur. Í Danmörku beinist athyglin mjög að Lars Løkke Rasmussen, formanni Venstre-flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vegna leka um að flokkurinn hafi lagt honum til fé vegna fatakaupa og kostað ferð fjölskyldu hans í frí til Mallorka eins og sagt er frá hér.

Í Bretlandi er hart sótt að Nigel Farage, leiðtoga UKIP, flokks sjálfstæðissinna, fyrir að hafa farið offari í hrakspám um fjölda Rúmena og Búlgara sem myndu koma til Bretlands. Í Frakklandi eru fluttar fréttir sem benda til þess að formaður mið-hægriflokksins, UMP, hafi látið flokkinn ofgreiða til fyrirtækis sem skipuleggur ráðstefnur en formaður sjálfur hefur tengsl við það.

Þannig mætti áfram telja. Í samanburði við þetta allt er baráttan vegna sveitarstjórnarkosninganna hér á landi hreinn barnaleikur. Spurning er hvaða mál koma helst til umræðu nú þegar alþingi hefur lokið störfum.

Að óreyndu hefði mátt ætla að nýsamþykkt lög um fækkun sýslumanna og stækkun lögregluumdæma gætu orðið hitamál vegna sveitarstjórnarkosninga. Ekkert ber hins vegar á ágreiningi vegna hinna nýju laga. Málið hefur verið árum saman á döfinni og er þaulrætt auk þess sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður þingnefndarinnar, sem fjallaði um málið, hafa haldið þannig á því að víðtæk sátt náðist um frumvörpin á alþingi. Vel af sér vikið.