1.5.2014 20:50

Fimmtudagur 01. 05. 14

Sjálfstæðisflokkurinn er með mesta fylgið í Reykjavík og fær flesta borgarfulltrúa kjörna segir í nýrri könnun Fréttablaðsins. Blaðið gat þó ekki greint rétt frá fjölda borgarfulltrúa á forsíðu sinni eins og nefnt er hér. Nú yrði það talið sem góður árangur fyrir Sjálfstæðisflokkinn fengi hann 30% og þar yfir í kosningunum. Árið 2002 var það talið mikið áfall fyrir flokkinn að fá „aðeins“ rúm 40% þegar hann barðist enn við R-listann. Þetta eru skrýtnir tímar!

Óskiljanlegt er að meirihluta borgarbúa þyki mestu skipta í komandi kosningum að kjósa þá til forystu sem eru á móti skoðun rúmlega 70% Reykvíkinga í flugvallarmálinu, leggjast gegn notkun einkabílsins og vilja nota skattfé frá borgarbúum til að ráðskast með það í anda vinstrisinna sem hafa stuðlað að efnahagslegri stöðnun í Evrópuríkjum á borð við Frakkland um þessar mundir.

Verði ekki um stefnubreytingu að ræða í Reykjavík verður haldið áfram með skemmdarverk á borð við það sem hefur verið unnið á Borgartúni eða fjáraustur eins og var stundaður á Hofsvallagötunni og ætlunin er að auka enn undir stjórn endurnýjaðs meirihluta.

Valdhroki þess fólks sem hefur tögl og hagldir í borgarstjórn um þessar mundir birtist best í fyrirlitningu þess á þeim sem er því ekki sammála í skipulagsmálum. Í þeim málaflokki eru teknar ákvarðanir þar sem annaðhvort er gengið á rétt einhvers eða það látið ógert.  Meirihlutinn sem enn situr og kann að verða endurkjörinn hikar ekki við að ganga á rétt borgara í grónum hverfum eins og til dæmis í Suðurhlíðum þar sem blásið hefur verið á athugasemdir íbúanna vegna framkvæmda sem raska munu öllu jafnvægi í skipulagi hverfisins.  Þá verður eyðileggingu á Öskjuhlíðinni haldið áfram.

Yfirlætið birtist í afstöðu til þeirra sem býr í úthverfunum. Afstaðan til þessara íbúa minnir helst á hvernig sumum þótti við hæfi að tala niður til landsbyggðarfólks fyrir fáeinum árum.