26.5.2014 23:15

Mánudagur 26. o2. 14

Þegar stórir atburðir gerast innan ESB eins og nú þegar þar verður pólitískur jarðskjálfti í kosningum til ESB-þingsins er einkennilegt hve þeir sem tala mest með nauðsyn þess fyrir Íslendinga að ganga í sambandið eru þögulir. Þetta er þó tilefni sem skynsamlegt er að nýta til að ræða stöðuna innan ESB og hvert stefnir því að athygli allra alvöru fjölmiðla beinist nú að innra starfi ESB, hvort og hvenær sambandinu verður breytt til að höfða betur til borgaranna innan þess.

François Hollande Frakklandsforseti flutti sjónvarpsávarp í kvöld þar sem hann sagði ESB „fjarlægt og óskiljanlegt“ í augum margra, hvorki almenningur né embættismenn einstakra aðildarlanda áttuðu sig á hvað gerðist á vettvangi sambandsins.

Fréttaskýrendur eru sammála um að á ESB-þinginu muni hefðbundnu þingflokkarnir leitast við að gera sem minnst úr flokkunum gegn ESB og leitast við að takmarka völd þeirra og áhrif. Það muni þó ekki duga til að stöðva breytingaöflin. Trúverðugleiki ESB gagnvart eigin borgurum er í húfi. Hann eykst ekki með því að ætla að úthýsa fulltrúum milljóna kjósenda.

Í þremur löndum þar sem ráðandi öfl hafa litið á flokka sem boða andstöðu við ESB eins og pólitískt holdsveika eru þessir flokkar nú í fyrsta sæti í ESB-þingkosningunum: Danmörku, Bretlandi og Frakklandi. Árásir á þessa flokka og gagnrýni þar sem ekki er alltaf virt það sem sannara reynist hafa ekki slævt áhuga á að kjósa þessa flokka. Þeir hafa stækkað jafnt og þétt í heimalöndum sínum og gætu eins gert það hvarvetna innan ESB.