19.5.2014 21:10

Mánudagur 19. 05. 14

Huang Nubo, kínverski auðmaðurinn sem starfaði tíu ár í áróðursdeild Kommúnistaflokks Kína, lætur ekki deigan síga og kemur enn á óvart. Nú herma fréttir að í október 2013 hafi hann siglt um norskan fjörð fyrir sunnan Tromsö og skoðað land í eigu norsks kaupsýslumanns og nú hafi þeir gengið frá samningi num kaup Huangs á landinu. Þetta sé aðeins upphafið að frekari umsvifum Huangs á norðurslóðum með Norðmanninum sem heitir Ola OK Giæver jr. og er lýst sem landeiganda, flugmanni og kaupsýslumanni.

Lofotenposten spyr Giæver jr hvers vegna hann telji Huang Nubo vilja leggja sig fram í þágu Norður-Noregs og svarar hann:

„Ég þekki hann. Maðurinn er heiðarlegur og traustur og þannig er hann mjög sérstakur kapítalisti. Ég hef kynnst honum sem hreinum, beinum og áreiðanlegum. Stundum verður maður bara að taka af skarið. Ég hef gert marga viðskiptasamninga um ævina og fyrir þessu hef ég besta tilfinningu af öllu sem ég hef kynnst sem kaupsýslumaður. Við höfum kynnt þeim norskar reglur og lög af kostgæfni og þeir eru sáttir við þær.“

Þegar ég las þessi hástemmdu lofsyrði varð mér hugsað til alls þess sem ég hef lesið um Huang Nubo og hvað hann hefur sagt um Ísland og Íslendinga frá því að hann hóf baráttuna til að eignast Grímsstaði á Fjöllum síðsumars 2011 með aðstoð forystumanna í Samfylkingunni innan og utan ríkisstjórnar. Af þeim kynnum get ég ekki tekið undir mat hins norska landeiganda og seljanda því að Huang Nubo hefur talað í nokkra hringi um samskipti sín við Íslendinga og ekki hefur allt staðist sem hann hefur sagt.

Hér má fræðast nánar um landakaup Huangs í Noregi.