14.5.2014 20:40

Miðvikudagur 14. 05. 14

Eldhúsdagsumræður fara fram á alþingi í kvöld. Þingmenn gera hreint fyrir sínum dyrum eftir veturinn. Fyrstur reið Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á vaðið og sagði meðal annars:

„Fyrir fjórum árum var almannarómur að framboð Besta flokksins væri til marks um pólitíska upplausn og skaðlegt alvöruleysi. Þegar Jón Gnarr býr sig nú undir að kveðja hið pólitíska svið er öllum ljós að aðrir hefðbundnari stjórnmálamenn hafa frekar orðið til þess að skapa pólitíska upplausn undanfarin ár en hann og hið yfirlýsta grínframboð. Það ætti að verða okkur öllum umhugsunarefni. Ekki síst í þessum sal.“

Óljóst er hvert flokksformaðurinn er að fara með þessum orðum. Að sjálfsögðu var framboð Jóns Gnarrs til marks um pólitíska upplausn og skaðlegt alvöruleysi. Jón Gnarr talaði á þann veg sjálfur. Hann vildi gera lítið úr hefðbundnu stjórnmálastarfi. Í þeim málflutningi felst pólitísk upplausn og hún blasir víða við nú fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Það eru til dæmis átta framboðslistar í Kópavogi.

Einkenni hinnar pólitísku upplausnar hafa síður en svo minnkað með framboði Jóni Gnarrs. Þau hafa þvert á móti aukist  meðal annars af því að sumir í hinum hefðbundnu flokkum halda að þeir geti fetað í fótspor grínistans sem notaði Ráðhúsið til uppistands eða innsetningar.

Stjórnmálamenn eiga að halda sig við það sem þeir bjóða sig fram til að sinna, hag almennings, lands og þjóðar. Það er aðeins á fárra manna færi að nota stjórnmálavettvanginn sjálfum sér til upphafningar. Sé formaður Samfylkingarinnar að boða ágæti þess er hann á villigötum.