7.5.2014 19:15

Miðvikudagur 07. 05. 14

Í dag er gengið til kosninga í Suður-Afríku. Fyrstu frjálsu kosningarnar þar voru fyrir 20 árum, vorið 1994. Ég fór þá á vegum Evrópuráðsins sem eftirlitsmaður með kosningunum.

Það er meðal þess sem aldrei gleymist af stjórnmálaferlinum að hafa farið á milli kjörstaða frá því fyrir allar aldir og fram á kvöld í Soweto og annars staðar við Jóhannesarborg og sjá fólkið standa tímunum samana í óralöngum röðum og bíða þess að komast að kjörborðinu. Allt fór fram með miklum ágætum og voru kosningarnar lýstar löglegar.

Lýðræðisþráin var mikil hjá þjóðinni sem hafði búið við kynþáttaaðskilnað en naut þess nú að allir voru jafnréttháir í kjörklefanum. Við sjáum enn þann dag í dag að ekki er sjálfgefið að fólk fái notið lýðræðis, meira að segja í Evrópu.

Hinn 25. maí er boðað til kosninga í Úkraínu þar sem kjósa á nýjan forseta og þing. Þótt Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi í dag kúvent og sagt að hann hafi trú á að kosningarnar stuðli að lausn deilunnar innan Úkraínu ríkir enn mikill ótti um að þetta sé aðeins sagt til að sýnast.

Pútín stundar svo einkennilega og frumstæða vinsældapólitík, heltekinn af eigin persónu, að kannski gaf hann yfirlýsingar í nýjum tón um Úkraínu í dag af því að púað var á fulltrúa Rússa á Evróvisjón í Kaupmannahöfn í gær en hrópuð hvatningar- og stuðningsorð þegar fulltrúi Úkraínu birtist.

Í kvöld klukkasn 20.00 er þáttur minn á ÍNN. Í fyrri hluta hans ræði ég við Bjarna Th. Bjarnason, efsta mann á lista Framsóknar og óháðra á Dalvík, og í seinni hlutanum við Aldsísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði.