10.5.2014 23:55

Laugardagur 10. 05. 14

Felst í samningnum um framlengingu skulda Landsbanka Íslands mismunun gagnvart kröfuhöfum bankanna, í þágu kröfuhafanna? Í ráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra lögðu þeir óbærilega skuldabyrði á Landsbankann. Hún breytist ekki þótt lánstíminn sé lengdur, óvissan vegna hennar eykst. Körfuhafarnir fá að lokum sitt á kostnað skattgreiðenda. Þetta er í andstöðu við megininntak neyðarlaganna.

Víglundur Þorsteinsson hefur af þrautseigju dregið gögn út úr stjórnarráðinu sem sýna að undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar talaði ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins um að „friðþægja“ kröfuhöfum bankanna. Ákveðið var að hafa ákvæði neyðarlaganna að engu, ýtt var til hliðar ákvæði þeirra um að lánveitendur ættu sjálfir að sitja uppi með afleiðingar eigin áhættu. Skuldunum skyldi velt yfir á skattgreiðendur.

Óvíst er hvernig uppgjöri við kröfuhafa vegna Kaupþings og Glitnis verður háttað. Samþykki fjármálaráðuneyti og seðlabanki hinn nýja lánasamning Landsbankans – verður litið á það sem fordæmi gagnvart lánardrottnum hinna bankanna, einkabankanna?

Þessum spurningum er óhjákvæmilegt að svara. Í alþingi vinnur hópur undir forystu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að athugun í framhaldi af bréfum Víglundar Þorsteinssonar. Þar er um að ræða skjalfestar staðreyndir varðandi uppgjörið við kröfuhafana og snerta hinn almenna skattgreiðanda.

Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Rætt var við hana í fréttum ríkisútvarpsins í dag og á ruv.is er þetta haft eftir henni um samninginn:

„Þetta er gríðarlega mikilvægt skref, þetta er kannski stærsti einstaki atburðurinn þarna úti sem þurfti að taka á áður en lengra er haldið [við afnám gjaldeyrishaftanna], þannig að í sjálfu sér er þetta mjög mikilvægt skref. Vandinn er ekki leystur, en þetta er mjög mikilvægt skref í rétta átt. […]

Þetta er á þeim línum sem menn hafa verið að hugsa, hvort þetta er nákvæmlega þannig á eftir að skoða og hvort að þetta er nægilegt þurfa menn að skoða betur, en þetta er tvímælalaust skref í rétta átt.“

Við lestur þessara orða er maður litlu nær um efni málsins. Þau bera helst með sér að hafin sé áróðursherferð í þágu þessa samnings til að knýja fram samþykki opinberra aðila án þess að skýrt sé frá mikilvægum efnistatriðum.