30.5.2014 23:55

Föstudagur 30. 05. 14

Miðað við umræðustjórn í erlendum sjónvarpsstöðvum þótti mér Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Lára Ómarsdóttir hlutdrægar í þágu ákveðinna stefnumála í umræðum kvöldsins þar sem efstu menn átta lista í Reykjavík skiptust á skoðunum.

Halldór Halldórsson á D-lista var málefnalegastur og stundaði ekki orðaleiki eins og Dagur B. Eggertsson sem sagði ekki hafa verið skipulagt neitt á „grænum svæðum“ til að þétta byggð heldur aðeins á „þegar röskuðum svæðum“, hvað sem í því felst. Dagur B. lét raunar eins og hann stæði á hærra stalli en aðrir frambjóðendur.

Að kosningum loknum kemst hann þó ekki á þennan stall án samstarfs við einhvern hinna oddvitanna. Dagur B. hefur helst augastað á S. Birni Blöndal í Bjartri framtíð. Birni brást bogalistin í þættinum, sérstaklega með því að sýna Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins, óvirðingu með látbragði sínu eftir að hún hafði hallmælt störfum núverandi meirihluta.

S. Björn Blöndal talaði um „örvæntingu framsóknarmanna“  og lýsti Framsóknarflokknum sem þjóðernislegum hægri öfgaflokki. Þeir sem þannig tala hafa enga hugmynd um stefnu og starfshætti flokka sem falla réttilega undir þessa skilgreiningu.

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins voru allar reglur brotnar með því að flytja einhliða samfylkingarfrétt til að gera stjórnendur Garðabæjar tortryggilega án þess að sjónarmið þeirra fengju rými í fréttatímanum, aðeins var rætt við frambjóðanda Samfylkingarinnar.

D-listinn í Rangárþingi eystra hafði opið hús í kosningaskrifstofu sinni á Hvolsvelli og lögðu margir leið sína þangað.