4.5.2014 19:50

Sunnudagur 04. 05. 14

Markvisst er þjóðin búin undir að þingsályktunartillagan um afturköllun ESB-umsóknarinnar verði ekki afgreidd á þessu þingi. Það er enn eitt sérkennilega atvikið í sögu þessa máls eftir að kjósendur höfnuðu ESB-aðild í þingkosningunum fyrir ári og ríkisstjórn var mynduð til að ljúka umsóknarferlinu sem hófst sumarið 2009.

Sé unnt að benda á eitthvert mál sem hefur verið framkvæmt á þann veg að þekkingar- og reynsluleysi setji svip sinn á hvert skref er ESB-málið frá upphafi til enda dæmi um slíkt mál. Er þá ekki aðeins litið til meðferðar þess í tíð núverandi ríkisstjórnar heldur einnig hinnar fyrrverandi.

Innan ESB-ríkisstjórnarinnar var engin samstaða um málið þótt ráðherrar segðust vilja niðurstöðu sem mætti leggja fyrir kjósendur. Hún átti að liggja fyrir innan 18 mánaða en þegar sá tími var liðinn hafði ESB stöðvað framgang viðræðnanna og síðan runnu þær út í sandinn um miðjan janúar 2013.

Samt héldu þeir sem vilja ræða málið til annars konar endaloka áfram að heimta af nýrri ríkisstjórn sem er á móti viðræðunum að hún héldi þeim áfram. Þeir vildu ekki viðurkenna að ESB hefði stöðvað viðræðurnar.

Núverandi ríkisstjórn hafði ekki burði til að kynna stöðu málsins á þann hátt sem bar. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 18. febrúar 2014 leiddi hið sanna endanlega í ljós. Síðan kom önnur skýrsla frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands samin af óskhyggju í viðtengingarhætti.

Allt liggur þetta skýrt fyrir utanríkismálanefnd alþingis. Hún treystir sér ekki til að afgreiða málið vegna ESB-aðildarsinna sem heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllum umsóknar sem varð sjálfdauð.