9.5.2014 22:30

Föstudagur 09. 05. 14

Þáttur minn á ÍNN frá því að miðvikudaginn er kominn á netið og má sjá hann hér.  Ég ræði við Bjarna Th. Bjarnason, frambjóðanda til sveitarstjórnar í Dalvíkurbyggð, og Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði.

Enginn vafi er á að verkfall flugmanna Icelandair skaðar ímynd Íslands sem ferðamannalands og grefur undan starfsöryggi flugmannanna. Er í raun ótrúlegt að flugmenn skuli grípa til úrræðis sem vegur fyrst og síðast að þeim sjálfum. Þótt það sé sérkennilegt var hitt ekki síður skrýtið að heyra hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins tók á málinu í morgun- og hádegisdegisfréttum. Engu var líkara en leitað væri að sökudólgi vegna þess að 60 manns höfðu farið til Keflavíkurflugvallar í morgun af því að fólkið vissi ekki af verkfallinu. Óljóst var hins vegar hver sökudólgurinn átti að vera eða hvers vegna það þótti yfirleitt fréttnæmt að rúmlega 1% þeirra sem áttu bókað flug með Icelandair í dag komu í morgun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Verkfall flugmanna Icelandair og verkföll starfsmanna ISAVIA fyrir skömmu eru skýr dæmi um hvernig andrúmsloftið í samfélaginu hefur breyst frá því veturinn 2008-09. Þá og síðan eftir gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010 hefði þótt jaðra við landráð að stofna til verkfalla af þessu tagi. Nú eru það hins vegar mannréttindi að skapa uppnám og óvissu með verkföllum og valda auk þess sjálfum sér og öðrum fjárhagslegu tjóni.