28.5.2014 23:18

Miðvikudagur 28. 05. 14

Var á kosningaskrifstofu D-listans á Hvolsvelli í kvöld, ræddi við kjósendur og meðframbjóðendur mína. Þrír listar eru í framboði hér í Rangárþingi eystra B-listi framsóknarmanna og L-listi auk D-listans.

Framsóknarmenn hafa haft hreinan meirihluta síðan 2010 með Ísólf Gylfa Pálmason sem sveitarstjóra. Liggur í loftinu að framsóknarmenn missi meirihluta sinn. Stærstu mistök þeirra á kjörtímabilinu voru að breyta sorphirðu til verri vegar. Þá þykja þeir hafa einangrast frá íbúunum í meirihluta sínum.

Á Hvolsvelli er töluverður hópur Pólverja, þeir starfa flestir hjá SS, og birta flokkarnir tilkynningar sínar á íslensku og pólsku. D-listinn efnir einnig til sérstaks kosningafundar fyrir þá sem ekki tala íslensku.

Kristín Þórðardóttir er oddviti D-listans. Hún hefur setið eitt kjörtímabil í sveitarstjórn og reynst farsæl í störfum sínum. Birkir Arnar Tómasson, bóndi á Móeiðarhvoli,  er í öðru sæti á D-listanum. Nýlega birtist viðtal við hann í Morgunblaðinu vegna stórframkvæmda við nýtt og nýtíuskulegt fjós sem hann ætlar að reisa á búi sínu. Guðmundur Viðarsson, bóndi í Skálakoti, skipar þriðja sætið, baráttusætið á D-listanum.