6.5.2014 21:39

Þriðjudagur 06. 05. 14

Það var glæsilegt hjá Pollapönk að komast í hóp 10 efstu af 16 í Evróvisjón-keppninni í kvöld. Danir stóðu óaðfinnanlega að framkvæmdinni og lauk útsendingunni á mínútunni 21.00. Miðað við það sem sagt hafði verið fyrir keppnina þótti ólíklegt að íslenska hljómsveitin næði svona langt. Í þessari keppni getur allt gerst og tryggir það vinsældir hennar.

Nú liggur fyrir að ekki er um eitt minnisblað að ræða í lekamálinu svonefnda heldur tvö. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra vakti máls á þessu á alþingi í dag eins og sjá má hér.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bent er á að falsað minnisblað sé á sveimi í málinu ég minntist til dæmis á það hér á síðunni hinn 7. mars sl. Þá rifjaði ég upp tilraun Reynis Traustasonar ritstjóra DV til að þagga niður í mér vegna þessa máls með því að hóta mér málsókn vegna þess sem ég sagði um efnistök DV. Þá sagði ég hér á síðunni:

„Málið er þannig vaxið að ætla má að einkum hafi vakað fyrir ritstjóranum að þagga niður í mér og fæla frá að gagnrýna efnistök DV eða skrif Jóns Bjarka. Hann skrifar nær daglega eitthvað misjafnt um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og leggur net sín þannig að allt er tortryggilegt sem snertir hana, þar á meðal frændfólk hennar. Jón Bjarki minnir í sömu andrá á rannsókn lögreglunnar á því sem DV telur leka úr innanríkisráðuneytinu. Blaðið segir nú að falsað minnisblað sé í umferð. Varla er það komið úr ráðuneytinu?“

Ætli lögreglunni takist að upplýsa um uppruna beggja minnisblaðanna?