11.5.2014 23:20

Sunnudagur 11. 05. 14

Sunnudagur 11. 05. 14

Eldraunin, leikritið eftir Arthur Miller sem nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu (stóra sal) er sett upp á einfaldan og áhrifamikinn hátt og vel flutt af frábærum leikurum. Atburðirnir sem lýst er gerðust í Salem í Massachusetts í Bandaríkjunum 1692 og 1693.

Um sig grípur múgæsing reist á ásökunum um galdra. Þótt atburðirnir hafi gerst fyrir rúmum 300 árum og þeir hafi sætt mikilli fordæmingu fer því víðs fjarri að ástandið sem lýst er sé einsdæmi. Nú á tímum samfélagsmiðla og smáskilaboða er auðveldara en nokkru sinni fyrr  að stofna tíl múgæsinga í einni eða annarri mynd og afleiðingarnar geta ekki síður orðið hörmulegar nú en þá.

Jakob Benediktsson, ritstjóri Orðabókar háskólans, þýddi leikritið fyrir sýningu Þjóðleikhússins 1955 og var þýðing hans notuð að nýju í Þjóðleikhúsinu 1986. Á ensku heitir leikritið The Crucible og er frá árinu 1953, íslenska heiti Jakobs Í deiglunni hélt ég að væri klassískt en Kristján Þórður Hrafnsson þýðandi sýningarinnar nú kallar verkið Eldraunina. Hvort þýðingarnar eru frábrugðnar að öðru leyti hef ég ekki kynnt mér en sérkennilegt er að heyra menn ávarpaða herra eða frú en síðan þúast fólk í samtölunum.

Lokaatriðið í þessari uppsetningu Þjóðleikhússins vísar til þess að hvað sem líður lygum sem eitrar samfélag heldur lífið áfram. Hvort fyrir Stefan Metz leikstjóra vaki að létta fargi af áhorfendum eftir hin dramatísku átök eða að sýna að á tíma atburðanna og endranær verði fólk að lokum að sætta sig við það sem að höndum ber er spurning. Hitt er víst að Arthur Miller samdi sígilt listaverk sem á ávallt erindi til áhorfenda.