16.5.2014 23:55

Föstudagur 16. 05. 14

Í frétt á mbl.is  segir að handrita­safn Árna Magnús­son­ar hafi átt veiga­mik­inn þátt í því að Reykja­vík var tilnefnd ein af bók­mennta­borg­um UNESCO árið 2011. Því skjóti skökku við að nán­ast sé ómögu­legt fyr­ir þá sem heim­sækja borg­ina að skoða þessi merku hand­rit.

Ellefu manna stjórn Reykja­vík­ur bók­mennta­borg­ar UNESCO skor­ar þess vegna á rík­is­stjórnina að „gera þess­ar heims­ger­sem­ar sýni­leg­ar á nýj­an leik, þar til þær eign­ast framtíðar­heim­ili við hæfi á Mel­un­um. Með stórri hugs­un er hægt að leysa þetta hratt og vel,“ seg­ir í álykt­un frá stjórn­inni.

Í álykt­un stjórn­arinnar seg­ir að þessi vegtylla gefi Reykja­vík og land­inu öllu aukna mögu­leika á því að kynna hið merka sköp­un­ar­starf sem hér sé unnið und­ir merkj­um orðlist­ar og bók­menn­ing­ar. Hand­rit­in veki aðdáun og eft­ir­tekt allra sem kom­ist í ná­vígi við þau.

Allt er þetta rétt. Áratugum saman voru handritin til sýnis við fábrotnar og þröngar aðstæður í Árnagarði. Fyrir nokkrum árum voru fáein en mikilvæg handrit flutt til sýnis í Þjóðmenningarhúsinu. Handritasýningin þar var að mörgu leyti vel heppuð. Kostaði varðstaða um þau þar tugi milljóna á ári. Nú hefur hlutverk hússins verið endurskilgreint og handritin  fjarlægð. Verður ný samstarfssýning allra íslenskra safna opnuð í húsinu og það kallað Safnahúsið eins og í upphafi.

Ætlunin er að nýtt hús rísi á Melunum, þar sem Melavöllurinn stóð. Það hýsi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og þar á meðal handritin með sýningarsal sem hentar. Komi allt að 25% ferðamanna til landsins vegna Íslendingasagnanna og annarra miðaldahandrita hafa þau gildi umfram hið fræði- og menningarlega. Til þess er meðal annars höfðað í ályktun bókmenntastjórnarinnar.

Víða um land leggja sveitarstjórnir og heimamenn rækt við bókmenntaarfinn og fá til þess stuðning ríkisins en krefjast ekki frumkvæðis þess eins og bókmenntastjórnin gerir. Hvers vegna skapar Reykjavíkurborg ekki aðstöðu svo að unnt sé að sýna handritin þar þau verða til sýnis á Melunum?