8.5.2014 23:10

Fimmtudagur 08. 05. 14

Guðvarður Már Gunnlaugsson, handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, flutti í dag fyrirlestur í röð Miðaldastofu um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum. Í kynningu á fyrirlestrinum sagði:

 „Í erlendum klaustrum voru allvíða sérstakar skrifarastofur, svokallaðar scriptoria, og spyrja má hvort svo hafi einnig verið hér. Til að svara því verður fyrst að skilgreina orðið scriptorium og í því samhengi er vert að velta því fyrir sér hvort orðið skrifstofa, sem kemur tvívegis fyrir í texta frá miðöldum, hafi verið bein þýðing á scriptorium. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir fjölda þeirra handrita sem talin eru skrifuð í íslenskum klaustrum með nokkurri vissu, auk þess sem litið verður á heimildir þar sem þess er beinlínis getið að klausturfólk hafi skrifað handrit.“

Það kom mér mest á óvart að Guðvarður Már sagði að af 980 þekktum handritum frá því fyrir 1600 væru aðeins 65 með vissu skrifuð í íslenskum klaustrum. Ég segi „aðeins“ af því að ég hafði áður haldið að mun hærra hlutfall handritanna mætti með vissu rekja til klaustranna. Ekki er unnt að slá neinu föstu um hvort scriptoria hafi verið í klaustrum í þeirri merkingu að sérstakt rými hafi verið sérstaklega ætlað þeim sem unnu að skriftum.

Þá var forvitnileg umræðan um hver hafi fyrst skráð texta frá eigin brjósti á íslensku en ekki skrifað upp texta eftir aðra. Virtist samhljómur um að það hefði verið höfundur svonefndrar „Fyrstu málfræðiritgerðar Snorra-Eddu” sem talin er skrifuð á síðari hluta 12. aldar. Höfundur er ókunnur en er jafnan nefndur „fyrsti málfræðingurinn” þar sem ritgerðin er hin elsta um íslenskt mál sem varðveist hefur.

Það var mikil hrifning á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í þéttsetinni Eldborginni í kvöld þar sem Ólafur Kjartan Sigurðarson söng og Vladimir Ashkenazy stjórnaði með glæsibrag.