2.5.2014 18:50

Föstudagur 02. 05. 14

Ásakanir um gerræði af hálfu Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs Reykjavíkur, og meirihluta borgarstjórnar magnast eftir því sem nær dregur kosningum.

 Í dag efndu forráðamenn samtakanna Hjartað í Vatnsmýri til blaðamannafundar á neyðarflugbraut Reykjavíkurflugvallar og sögðu stöðuna í flugvallarmálinu aldrei hafa verið eins alvarlega og nú. Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefði síðustu vikur tekið „gróf skref sem miða að niðurrifi“ flugvallarins í Reykjavík. „Þetta gerir meirihlutinn á sama tíma og hann lætur svo virðast í fjölmiðlum að málið sé í farvegi nefndar Rögnu Árnadóttur sem ríki, borg og Icelandair standa að,“ segir í tilkynningu sem send var fjölmiðlum.

Meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar virði ekki samkomulag um sáttarferli flugvallarins sem samið var um í Hörpu hinn 25. október 2013. Í tilkynningunni segir:

„Meirihlutinn hefur hafið árás á flugvöllinn á þremur vígstöðvum samtímis og fer fram með áður óþekktu offorsi gegn flugrekendum, fasteignaeigendum og flugnemum. Hjartað í Vatnsmýri ítrekar, að 70.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun til meirihluta borgarstjórnar og Alþingis um að tryggja flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar. Þá vilja 80% landsmanna og 71% íbúa í Reykjavík að völlurinn verði áfram í Vatnsmýri,“

Sama dag og efnt er til þessa blaðamannafundar ritar Guðbjörg Snót Jónsdóttir grein í Morgunblaðið þar sem hún mótmælir „gerræðislegum tilburðum“ meirihluta borgarstjórnar gagnvart borgarbúum í skipulagsmálum. Hún segist ekki ætla að kjósa Samfylkinguna í kosningunum nú eins og hún gerði árið 2010 vegna þessara vinnubragða meirihlutans.

Guðbjörg Snót víkur að því sem nefnt var hér á þessum stað í gær, að hin ráðandi öfl í borgarstjórn Reykjavíkur líta niður á þá sem búa í úthverfunum. Guðbjörg Snót, guðfræðingur og fræðimaður, orðar þetta af reiðilegri þunga en gert var hér í gær þegar hún segir:

„Þeir hugsa ekki heila hugsun til enda varðandi úthverfin, og að búa í úthverfum kunna þau ekki, þessar lattelepjandi miðbæjarrottur.“