21.5.2014 20:00

Miðvikudagur 21. 05. 14

Í dag ræddi ég við Óla Björn Kárason, varaþingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Við förum yfir stöðu stjórnmála í þinglok og 10 dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hún er einna einkennilegust í Reykjavík þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar ef marka má kannanir á sama tíma og það er mikið allt í kringum höfuðborgina.

Flugufrétt birtist á netmiðlum í dag um að stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ætlaði í hádeginu að ræða um að ýta Halldóri Halldórssyni, efsta manni á D-listanum í Reykjavík, til hliðar vegna þess hve illa gengi í kosningabaráttunni. Þetta reyndist úr lausu lofti gripið.

Þeir sem muna kosningastarf Varðar og fulltrúaráðsins í Reykjavík á árum áður vita að kosningabarátta sjálfstæðismanna í höfuðborginni er aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.

Sjá má samtal okkar Óla Björns á ÍNN klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag.