31.5.2014 23:55

Laugardagur 31. 05. 14

Kosningabaráttan í Rangárþingi eystra var skemmtileg og ánægjulegt að kynnast því ágæta fólki sem skipar D-listann. Það tókst þó ekki að fella meirihluta framsóknarmanna sem er í minnihluta meðal kjósenda með 46,9% atkvæða. D-listinn hélt sínum 2 mönnum (33,7%) af 7 en nýr listi, L-listinn, fékk 1 mann (19,4%). L-listinn var boðinn fram í þeim tilgangi að breyta og fella meirihlutann. Meirihluti kjósenda vildi breytinguna sem var í loftinu en kosningareglurnar tryggðu minnihlutanum meirihluta í sveitarstjórninni. Þessi staða er ekkert einsdæmi í Rangárþingi eystra en þar réðust úrslitin af 3 eða 4 atkvæðum og þurfti að telja oftar en einu sinni.

Heildarniðurstaðan eftir að hafa fylgst með tölunum eins og þær birtast í ríkisútvarpinu sýna sterkari stöðu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins en í skoðanakönnunum. Stjórnarflokkarnir geta vel við unað.