15.5.2014 22:30

Fimmtudagur 15. 05. 14

Nú er svo komið að ég hef sagt upp áskrift á prentaðri útgáfu blaða og tímarita sem ég kaupi frá útlöndum og les allt erlent blaðaefni á iPad eða tölvu. Þetta er þægileg aðferð til að fylgjast með því sem gerist austan hafs og vestan. Samkeppni eykst á milli miðla á netinu og hún birtist meðal annars í því að æ fleiri fréttir eru tengdar lifandi myndum. Jafnframt er leitast við að lokka lesendur til að greiða fyrir þjónustuna.

Ritstjórar tveggja blaða sem ég les reglulega The New York Times (NYT) og Le Monde hafa horfið frá störfum síðasta sólarhring.

Jill Abramson, stjórnandi ritstjórnar NYT, var óvænt rekin miðvikudaginn 14. maí án þess að nákvæmlega sé vitað hvað olli fyrirvararlausri brottför hennar. Hún fékk stöðu sína síðsumars 2011, fyrsta konan í sögu blaðsins. Sagt er að hluti skýringar afsagnar hennar sé að hún hafi mætt óvild frá körlum undir stjórn hennar.

Natalie Nougayrède, stjórnandi ritstjórnar Le Monde, sagði af sér miðvikudaginn 14. maí. Undanfarið hafa borist fréttir af ágreiningi á ritstjórn blaðsins og nokkrir æðstu menn hennar sögðu af sér. Nú hefur fyrsta konan á toppi Le Monde síðan horfið á brott eftir að hafa aðeins verið þar síðan í mars 2013. Hið sama á við um afsögnina á Le Monde og NYT  að fréttir um hina raunverulegu ástæðu eru óljósar. Ekki kæmi á óvart að fréttir bærust af karlrembu í París eins og í New York.

Þessi tvö blöð njóta trausts og virðingar fyrir fréttir sínar. Á ritstjórnum þeirra glíma menn ekki aðeins við öflun og skrif frétta heldur þurfa þeir að finna rétt jafnvægi við miðlun þeirra á prenti og rafrænt. Af frásögnum má ráða að veruleg spenna hafi myndast innan ritstjórna þessara tveggja blaða við töku ákvarðana sem snerta þennan þátt í störfum þeirra. Þessi spenna kann að hafa flýtt fyrir brottför stjórnenda ritstjórnanna.

Það hefur verið næsta ævintýranlegt að fylgjast með þróun vefsíðu Le Monde undanfarna mánuði og hvernig prentmiðillinn og hinn rafræni falla saman á netinu. Á hverjum degi um hádegisbil fá áskrifendur tilkynningu um Le Monde sé komið út og dreifing þess hafin en fyrir hádegi hefur ritstjórnin kynnt netáskrifendum sínum efni blaðsins eins og það hefur þróast á lokastigi. NYT nálgast lesendur á annan hátt en þar hefur markvisst verið unnið að því síðustu mánuði að lokka þá til að greiða fyrir þjónustuna.

Netsíður íslenskra fjölmiðla taka einnig breytingum. Mbl.is  hefur yfirburði en aðrir sækja í sig í veðrið og vefsíða Ríkisútvarpsins hefur til dæmis tekið breytingum og styrkst undanfarið.