22.5.2014 22:57

Fimmtudagur 22. 05. 14

Opnunartónleikar Listahátíðar í Reykjavík voru í kvöld í Norðurljósasal Hörpu þar sem félagar í Kammersveit Reykjavíkur fluttu tvö verk: Hið fyrra var frumflutningur á verkinu Hér vex enginn sítrónuviður eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Gyrðis Elíassonar og hið síðara Pierrot lunaire eftir Arnold Schönberg við ljóð eftir Albert Giraud.

Bernharður Wilkinson stjórnaði en Hanna Dóra Sturludóttir söng einsöng og flutti texta.  Benedikt Gylfason (f. 2002) söng í verki Atla Heimis.

Tónleikarnir báru heitið: Pierrot prójektið en Króatinn Valerij Lisac annaðist leikstjórn og listræna umgjörð í Pierrot lunaire sem er talið meðal erfiðustu tónverka í flutningi. Hljóðfæraleikarar voru: Áshildur Haraldsdóttir flauta, Rúnar Óskarsson klarinetta, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanó, Una Sveinbjarnardóttir, fiðla og víóla, Hrafnkell Orri Egilsson selló en auk þess lék Frank Aarnik á slagverk í verki Atla Heimis.

Í tónleikaskrá er þess sérstaklega minnst að í ár eru 40 ár liðin frá stofnun Kammersveitar Reykjavíkur en árið 1980 frumfluttu félagar í henni Pierrot lunaire á Íslandi og stjórnaði Paul Zukofsky flutningnum. Hefur hann verið gefinn út á DVD.

Flutningurinn á verkunum í kvöld var glæsilegur. Umgjörðin um Pierrot var vel heppnuð og skiluðu listamennirnir því á frábæran hátt til fjölmenns hóps áheyrenda.

Í dag var lokaerindi flutt í flokki Miðaldastofu Háskóla Íslands um klaustur á Íslandi. Að þessu sinni talaði Margaret Cormack, prófessor í guðfræði við College of Charleston í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum. Ræddi hún um upphaf klaustra á Íslandi og helgisögur tengdar stofnun þeirra.

Þá var gaman að koma í Gamla garð og sjá hve vel Félagsstofnun stúdenta (FS) hefur staðið að endurnýjun hans. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, sagði í ávarpi að um tíma hefði verið rætt hvort selja ætti húsið en niðurstaðan hefði verið að endurnýja það með hollustu við uppruna þess að leiðarljósi og hefur það tekist með ágætum. Í sumar verður hótel rekið í húsinu og stúdentar flytja þangað næsta haust.