29.5.2014 22:50

Fimmtudagur 29. 05. 14

Í Fréttablaðinu segir í dag: „Það voru eflaust ekki margir sem áttu von á því að helsta umræðuefnið tveimur dögum fyrir borgarstjórnarkosningar væri úthlutun lóðar fyrir mosku múslima í Reykjavík.“ Hvers vegna er blaðamaðurinn undrandi á að þetta mál veki umræðu rétt áður en Reykvíkingar kjósa nýja borgarstjórn? Hið skrýtna er að ekki hafi verið meiri umræður um málið frá því að meirihluti borgarstjórnar ákvað að velja moskunni þann stað sem hann gerði.

Líklegt er að hart hefði verið deilt á meirihlutann hefði hann ákveðið að þarna risi kirkja. Reykvíkingar hafa ekki farið varhluta af deilum um um kirkjubyggingar. Þær voru til dæmis háværar um Hallgrímskirkju sem nú er mest sótti ferðamannastaðurinn í höfuðborginni. Menn hafa ekki hikað að deila um stað fyrir rétttrúnaðarkirkju og einn af frambjóðendum Samfylkingarinnar hallmælti henni með mun harðari orðum en frambjóðandi Framsóknarflokksins hefur látið falla um stað fyrir mosku.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, telur að ekki eigi að gefa lóðir undir trúfélög í Reykjavík. Hann minnir á að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá á sínum tíma um lóðarval meirihlutans vegna moskunnar, þeim þótti lóðin „ekki heppileg“ segir Halldór við Fréttablaðið. Útspil frambjóðanda Framsóknarflokksins var ekki frumlegt en hitti í mark af því að kosningar eru á næsta leiti – þá er einmitt rétti tíminn til að hreyfa ágreiningsefnum.

S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, lætur eins og ágreiningur um lóðarvalið sé nýr á nálinni hann segir:

 „Ég setti þetta í samhengi við ákveðna bylgju í Evrópu þar sem hægriöfgaöfl og öfl sem að ala á ótta, hatri og öðru slíku voru að ná miklu fylgi í kosningum til Evrópuþingsins. Ég er alveg viss um að Reykvíkingar eru ekki að fara að láta bjóða sér þetta.“

 Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir:

„Mér finnst þetta bera svolítið bera mið af örvæntingu þegar Framsókn var ekki að fá mikið fylgi. Ég er hugsi yfir þessu útspili Framsóknarflokksins.“

 Að kenna þetta við örvæntingu er fráleitt. Um er að ræða val á lóð undir mosku, hina fyrstu á Íslandi. Tilraunir til að kæfa umræður um málið eru dæmdar til að mistakast.