24.5.2014 23:20

Laugardagur 24. 05. 14

Fórum á tónleika í Eldborg. Þeir enduðu á þann veg sem lýst er í þessari fréttatilkynningu frá Listahátíð í Reykjavík:

„Velski bass-barítóninn Bryn Terfel missti röddina þegar 20 mínútur voru liðnar af einsöngstónleikum hans í Eldborg á Listahátíð.  Hann tók þá ábyrgu ákvörðun að ljúka ekki tónleikunum og tilkynnti tónleikagestum að hann myndi koma aftur við fyrsta tækifæri. Ný dagsetning fyrir tónleikana hefur þegar verið ákveðin og mun hann koma og syngja í Eldborg þann 10. júlí næstkomandi. Allir seldir miðar á tónleikana 24. maí gilda á tónleikana 10. júlí.“

Það er vel að verki staðið að tilkynna strax nýjan tónleikadag.

Bryn Terfel hefur greinilega „forkelast“ hér á landi. Egill Helgason álitsgjafi sagði á vefsíðu sinni í gær:

„Ég rakst á óperusöngvarann Bryn Terfel í miðbænum í gærkvöldi. Hann var bara á skyrtunni, reyndar var mikið blíðviðri og hann virkaði afar kátur, en ég spurði hvort honum væri ekki kalt. Söngvarar eru alltaf hræddir við að kvefast.

Hann spurði hvort ég vildi lána sér jakkann minn.“

Skyldi Egill ekki hafa viljað lána honum jakkann?