3.5.2014 22:10

Laugardagur 03. 05. 14

Í Reykjavíkurbréfi nú um helgina afhjúpar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, ósannindi Egils Helgasonar álitsgjafa. Að þessu sinni fór Egill á svig við sannleikann þegar hann skrifaði af fáfræði og Davíðsóvild um Þjóðmenningarhúsið.

Þegar Safnahúsið var opnað sem Þjóðmenningarhús 20. apríl 2000 var ég menntamálaráðherra og flutti ræðu þar sem ég sagði meðal annars:

„Þegar við blasti á níunda áratugnum, að Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn flyttu starfsemi sína úr húsinu, hófust umræður um, hvernig skynsamlegast væri að nýta þessa þjóðargersemi. Rætt var um, að Hæstiréttur Íslands fengi hér inni eða Stofnun Árna Magnússonar, einnig var hreyft hugmyndum um sýninga- og menningarstarf í sambúð við skrifstofu forseta Íslands. Nefndir störfuðu og skiluðu ágætum hugmyndum. Öllum var ljóst, að ekkert mætti gera, sem raskaði byggingunni sjálfri með nokkrum hætti.

Hinn 16. febrúar 1996 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um þá skipan, sem fylgt hefur verið síðan varðandi endurnýjun og nýtingu hússins. Efni ákvörðunar ríkisstjórnarinnar blasir við okkur hér í dag í orðsins fyllstu merkingu og er ánægjulegt að sjá, hve vel hefur tekist að útfæra hana og hve góð sátt hefur náðst við yfirvöld húsafriðunar um framkvæmdir við húsið. Fé til þeirra hefur verið veitt úr Endurbótasjóði menningarbygginga, sem starfar á vegum menntamálaráðuneytisins. Er þetta stærsta einstaka verkefni, sem kostað hefur verið af sjóðnum undanfarin ár.“

Í Reykjavíkurbréfinu kemur fram að á vefsíðu sinni hafi Egill sagt að fyrst hafi verið „hugmyndin að fara með forsætisráðuneytið þarna inn – það var líkt og liður í viðleitni Davíðs Oddssonar til að samsama sig Hannesi Hafstein – en þegar það gekk ekki eftir var Þjóðmenningarhúsið stofnað“. Þetta er einfaldlega heilaspuni Egils eins og svo margt annað sem frá honum kemur. Við slíkum spuna er almennt ekkert að segja. Til Egils verður þó að gera sömu kröfur og annarra: að farið sé rétt með staðreyndir.