12.5.2014 23:20

Mánudagur 12. 05. 14

Paul Johnson verður 86 ára í ár. Hann er enskur blaðamaður, sagnfræðingur og rithöfundur. Um þessar mundir er hann að gefa út 50. bók sína. Hann skrifar í síðasta hefti vikuritsins The Spectator og segir meðal annars:

„Ég hef viðbjóð á Vladimír Pútin, Enginn á alþjóðavettvangi hefur vakið hjá mér slíka andúð síðan Stalín dó. Þótt Pútín sé ekki fjöldamorðingi á borð við Stalín er honum álíka lítið um mannslíf gefið. Þá má einnig greina í tengslum við hann svipuð glæpagengi og hjá Stalín: „stuðningsmenn“ hans ganga um með hulin andlit og bera skotvopn. Pútín líkist einnig Hitler þegar hann notar herskáa minnihlutahópa til að breiða út veldi sitt. Er ég að verða vænisjúkur vegna Pútíns? Ég vona ekki. Mér er hins vegar óljúft að viðurkenna að væri sterkur maður við stjórnvölinn í Washington skipti Pútin engu. Málum er einfaldlega þannig háttað að Obama forseti er svo veikburða og huglaus að Jimmy Carter virðist hugrakkur í samanburði við hann. Hann er að grafa undan strategísku afli Bandaríkjanna á sama tíma og hann flytur tætingslegar siðfræði prédikanir. Að hann skuli hafa verið kjörinn tvisvar segir harla óþægilega sögu um bandarísku þjóðina. Hann er einnig óútreiknanlegur, hann kynni allt í einu að breyta um stefnu og ákveða að sýna vald sitt. Það gæti leitt til kjarnorkustríðs. Það eru veiklundaðir menn sem kalla yfir okkur heimsstyrjaldir fyrir slysni.

Ég dái Angelu Merkel en á henni hvíla of þungar byrðar vegna hroðalegrar fortíðar Þýskalands til að hún móti harða stefnu. Þeir sem vilja kynna sér fánýta hluti velta Evrópusambandinu fyrir sér. François Hollande hefur ekki stjórn á skapsofsa kvennanna í kringum sig. Nýi valdamaðurinn í Róm lofar góðu – vinkona mín Carla Powell mælir með honum – hann þarf hins vegar tíma til að öðlast áhrif. Vingjarnlegi hrakfallabálkurinn í London, David Cameron, er dæmdur til að tapa. Eini stjórnmálamaðurinn sem sýnir meistaratakta um þessar mundir er Nigel Farage. Hann skortir hins vegar alla framsýni. Sem betur fer er Boris, vinur okkar, nálægur. Hann heldur enn að hann geti lagt undir sig Íhaldsflokkinn án þess að úthella blóði Camerons. Það er ekki rétt. Hann verður að gera upp hug sinn og sækja fram. Hann er eini maðurinn af sinni kynslóð með bein í nefinu sem hefur hæfileika og kraft Lloyds George, og hann verður framúrskarandi flokksleiðtogi, forsætisráðherra og þátttakandi í leiðtogafundum. Ég sé hann setja Pútín á þann stað sem hæfir honum. Hann verður hins vegar að láta fljótlega til skarar skríða. Auðvelt er að fara á mis við óskastundina í stjórnmálum.“