17.9.2015 18:30

Fimmtudagur 17. 09. 15

Viðtal mitt við Kenneth Cohen qi gong meistara frá Bandaríkjunum er komið á netið og má sjá hann hér.

 Þegar rætt er um Schengen-framtíðina er nauðsynlegt að fylgjast náið með samskiptum þýskra og franskra stjórnvalda til að átta sig á þróuninni innan ESB. Þjóðverjar mæla með kvótum og að fólk í einu Schengen-landi verði flutt til annars til að jafna byrðunum. François Hollande á í vök að verjast. Enginn Frakklandsforseti hefur notið minna fylgis í skoðanakönnunum en hann. Mið-hægrimenn vilja ekki kvótakerfi heldur að til sögunnar komi Schengen 2, Þjóðfylkingin lengra til hægri vill burt með Schengen-samstarfið og enga kvóta.

Le Monde sagði um fund innanríkis- og dómsmálaráðherra Schengen-ríkjanna í Brussel mánudaginn 14. september að hann hefði verið „fíaskó“. Engin haldbær niðurstaða hefði náðst, ráðherrarnir ætla að hittast aftur nk. þriðjudag og eftir fund þeirra vill Angela Merkel að leiðtogaráð ESB komi saman og ræði málið.

Schengen er í uppnámi, drög að nýjum útlendingalögum hér eru reist á Schengen fyrir uppnámið. Það er sjálfgert að slá málinu á frest þar til Schengen 2 sér dagsins ljós. Það er hárrétt hjá Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að virða ber Dublin-reglurnar. Hugmyndir um að hundsa þær eru órökstuddar.