4.9.2015 22:40

Föstudagur 04. 09. 15

„Það var stofnað til þessa máls með illviljan að vopni,“ segir Þorsetinn Már Baldvinssyni, forstjóri Samherja um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum. Sérstakur saksóknari felldi málið niður í dag. Þorsteinn Már segir seðlabankastjóra hafa stofnað til málsins með fölsunum. Þetta stendur á ruv.is í dag en hús­leit var gerð á skrif­stof­um Sam­herja á Ak­ur­eyri og í Reykja­vík í mars árið 2012 að kröfu Seðlabanka Íslands og hald lagt á mikið magn gagna. Síðan var fyr­ir­tækið kært fyr­ir meint brot á lög­um um gjald­eyr­is­höft.  Við rekstur málsins þurfti hins vegar að leggja fram nýja kæru þar sem ekki reynd­ist refsi­heim­ild fyr­ir hendi vegna lögaðila. Lagði seðlabank­inn því fram kæru á hend­ur Þor­steini Má og þrem­ur öðrum lyk­il­starfs­mönn­um. Sérstakur saksóknari telur ekki tilefni til að verða við kæru seðlabankans.

Á mbl.is segir Ólaf­ur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, að eft­ir standi hvort seðlabank­inn telji til­efni til þess að ákv­arða stjórn­valds­sekt vegna máls­ins. Þá geti þeir sem hlut eigi að máli kært niður­stöðu sér­staks sak­sókn­ara til embætt­is rík­is­sak­sókn­ara sem taki ákvörðun um það hvort málið skuli tekið fyr­ir að nýju eða staðfesti ákvörðun­ina.

Þetta er ekki eina málið sem til var stofnað að tilhlutan Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann lagði stein í götu Heiðars Guðjónssonar sem vildi kaupa Sjóvá á sínum tíma. Seðlabankastjóra tókst illa til í því máli og var kvartað til Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis. Hann hefur haft málið til meðferðar árum saman og hafa ekki borist fréttir af niðurstöðu hans. Vandræðagangurinn hjá umboðsmanni í málinu eru í andstöðu við áminningar hans í garð ýmissa stjórnvalda um að gæta að reglum um hæfilegan málshraða. Umboðsmaður hefur brotið allar slíkar reglur við afgreiðslu á þessari kvörtun vegna stjórnsýslu seðlabankastjóra. Hvers vegna? Til að halda hlífiskildi yfir Má Guðmundssyni.

Heiðar fór þess á leit við þjóðskrá að millinafnið Már yrði fellt úr nafni hans. Skyldi Þorsteinn Már gera hið sama?