Föstudagur 04. 09. 15
„Það var stofnað til þessa máls með illviljan að vopni,“ segir Þorsetinn Már Baldvinssyni, forstjóri Samherja um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum. Sérstakur saksóknari felldi málið niður í dag. Þorsteinn Már segir seðlabankastjóra hafa stofnað til málsins með fölsunum. Þetta stendur á ruv.is í dag en húsleit var gerð á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík í mars árið 2012 að kröfu Seðlabanka Íslands og hald lagt á mikið magn gagna. Síðan var fyrirtækið kært fyrir meint brot á lögum um gjaldeyrishöft. Við rekstur málsins þurfti hins vegar að leggja fram nýja kæru þar sem ekki reyndist refsiheimild fyrir hendi vegna lögaðila. Lagði seðlabankinn því fram kæru á hendur Þorsteini Má og þremur öðrum lykilstarfsmönnum. Sérstakur saksóknari telur ekki tilefni til að verða við kæru seðlabankans.
Á mbl.is segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, að eftir standi hvort seðlabankinn telji tilefni til þess að ákvarða stjórnvaldssekt vegna málsins. Þá geti þeir sem hlut eigi að máli kært niðurstöðu sérstaks saksóknara til embættis ríkissaksóknara sem taki ákvörðun um það hvort málið skuli tekið fyrir að nýju eða staðfesti ákvörðunina.
Þetta er ekki eina málið sem til var stofnað að tilhlutan Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann lagði stein í götu Heiðars Guðjónssonar sem vildi kaupa Sjóvá á sínum tíma. Seðlabankastjóra tókst illa til í því máli og var kvartað til Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns alþingis. Hann hefur haft málið til meðferðar árum saman og hafa ekki borist fréttir af niðurstöðu hans. Vandræðagangurinn hjá umboðsmanni í málinu eru í andstöðu við áminningar hans í garð ýmissa stjórnvalda um að gæta að reglum um hæfilegan málshraða. Umboðsmaður hefur brotið allar slíkar reglur við afgreiðslu á þessari kvörtun vegna stjórnsýslu seðlabankastjóra. Hvers vegna? Til að halda hlífiskildi yfir Má Guðmundssyni.
Heiðar fór þess á leit við þjóðskrá að millinafnið Már yrði fellt úr nafni hans. Skyldi Þorsteinn Már gera hið sama?