15.9.2015 16:00

Þriðjudagur 15. 09. 15

Vitnað var í þingræðu sem Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, flutti í dag um að nefndarfundir þingmanna yrðu í heyranda hljóði. Á visi.is var haft eftir henni: „Nefndarfundir eru stór hluti í að búa til stefnur sem landið okkar byggir. Einungis þrír nefndarfundir af fjölmörgum á þessu ári hafa verið haldnir í heyranda hljóði.“ Taldi hún þennan boðskap eiga vel við á degi lýðræðisins.

Hvað sem líður hugsjóninni að baki þessum orðum verður þeim ekki hrundið í framkvæmd nema menn vilji eyðileggja eitt helsta gildi funda þingnefnda, það er að þar ræða menn saman án þess að setja sig í sömu stillingar og þeir gera í opinbera sviðsljósinu. Í þessum orðum felst ekki að eitthvert leynimakk eigi sér stað á bakvið luktar dyr nefnda heldur ábending um að venjulegt nefndarstarf er ekki fallið til beinnar útsendingar.

Fundir alþingis hafa tekið miklum breytingum frá því að tekið var til við beinar útsendingar frá þeim og þær eru ekki allar til bóta. Raunar hefði mátt ætla að bein útsending af þingfundum minnkaði líkur á uppákomum eins og þeim sem verða þegar hundruð eða þúsund ræður eru fluttar um annað en nokkurt dagskrárefni þingsins, það er um störf þingsins eða fundarstjórn forseta. Hvílík tímasóun! Með því að ræða efni mála sem eru á dagskrá á skipulegan hátt færa þingmenn þeim sem á þá hlusta fróðleik um það sem gerist á nefndarfundum. Það er miklu betri aðferð til að auka traust á þinginu og fræða aðra um það sem þar er til meðferðar en flytja hljóðnema inn á nefndarfundi.

Hér má lesa athyglisverða frétt fyrir þá sem velta fyrir sér efni útlendingalaga

Þar kemur fram sem oft hefur verið sagt hér á þessari síðu að efni þessara laga ræður miklu um hvort ríki vilja laða að sér hælisleitendur eða ekki. Það er engin tilviljun að fjöldi hælisleitenda aukist hér eftir að fréttir eru fluttar um að taka eigi á móti þúsundum þeirra. Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann ætlaði að opna Bandaríkin fyrir 20.000 sýrlenskum flóttamönnum – miðað við höfðatölu ætti að bjóða 20 hæli hér á landi.