16.9.2015 22:00

Miðvikudagur 16. 09. 15

Í kvöld birtist á ÍNN viðtal mitt við Kenneth Cohen, qi gong meistara frá Bandaríkjunum, sem var hér á dögunum. Þetta er fyrsta viðtal mitt á erlendu máli á ÍNN. Textarnir voru skýrir á skjánum og vona ég að efni samtals okkar Kens hafi komist vel til skila hjá áhorfendum. Þátturinn verður næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun og hann má nálgast á tímaflakki Símans.

Að tilefni þess að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti viðskiptabann á Ísrael hafi verið brottför Bjarkar Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) til starfa í Palestínu er jafnvel meirihlutanum til meiri skammar en hin í raun marklausa ályktun.

Á ruv.is sagði í dag:

„Björk Vilhelmsdóttir sem hætti í borgarstjórn í gær lagði tillöguna fram en hefð er fyrir því að fráfarandi borgarfulltrúar flytji kveðjutillögu á síðasta fundi sínum.“

Þessi sérkennilegi háttur innan borgarstjórnar og viðbrögð borgarfulltrúa almennt við tillögu Bjarkar um þetta efni bera með sér klúbb-andrúmsloftið innan borgarstjórnar. Þetta andrúmsloft gerir þessa stjórn borgarinnar æ marklausari.

Í bókun sjálfstæðismanna vegna tillögu Bjarkar sagði að þess væri saknað að tillaga Bjarkar tengdist ekki velferðarmálum, þar sem mikilla umbóta væri þörf, eins og hún hefði tjáð sig um nýlega. Þetta er tæknileg en ekki pólitísk afstaða og endurspeglar enn klúbb-viðhorfið í ráðhúsinu.

Hér er um pólitískt mál að ræða sem mótast af óvild í garð Ísraels og gyðinga. Málið á að ræða á þeim forsendum en ekki á þann hátt sem það er kynnt af borgarstjóra sem segir það mannréttindamál eða oddvita sjálfstæðismanna sem segir að tæknileg rök skorti fyrir hver verði áhrif samþykktar borgarstjórnar á innkaup í nafni Reykvíkinga.

Þegar fulltrúar stjórnmálaflokkanna afmá pólitíkina úr málflutningi sínum er ekki að undra að fólki sé sama hverja þeir kjósa.